Eins og venja hefur verið þá var tilkynnt um val á íþróttamanni ársins á 17. júní hátíðarhöldunum á Hvolsvelli. Íþróttafélögin og Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi eiga möguleika á að tilnefna íþróttamenn en það er svo Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd sem velur úr þeim sem eru tilnefndir.

Kolbrá Lóa Ágústsdóttir, varaformaður Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar, flutti ávarp þegar verðlaunin voru afhent og kynnti þá íþróttamenn sem að fengu tilnefningar. Að lokum tilkynnti Kolbrá að Íþróttamaður Rangárþings eystra 2022 er Elvar Þormarsson, hestamaður í Geysi. 

Elvar átti frábært keppnisár í gæðingaskeiði með hryssuna Fjalladís frá Fornusöndum og sigruðu þau öll stórmót ársins, Reykjavíkurmeistaramót, Íslandsmót og Landsmót. Ásamt þessu gerði hann góða hluti með hestinn Pensil frá Hvolsvelli en þeir stóðu til að mynda ofarlega í B flokk gæðinga á landsmóti hestamanna.

Elvar er frábær fyrirmynd hvort sem er innan vallar eða utan, jákvæður og háttprúður.

Rangárþing eystra óskar Elvari innilega til hamingju með nafnbótina.

Aðrir íþróttamenn sem fengu tilnefningu eru eftirfarandi:

Andri Már Óskarsson

Andri Már er enginn nýgræðlingur á golfvellinum en hann hefur spilað og æft af kappi frá blautu barnsbeini og er hann einn af bestu kylfingum landsins. Hann er góð fyrirmynd og kemur vel fyrir, er yfirvegaður og kurteis innan vallar sem utan.

Bjarni Þorvaldsson

Bjarni átti mjög gott tímabil með meistaraflokki karla á síðasta ári þar sem hann spilaði 15 leiki og skoraði 9 mörk í þeim. Þá spilaði hann einnig 15 leiki með 3. Flokk karla og skoraði í þeim leikjum 12 mörk.

Bjarni hefur æft fótbolta með KFR frá unga aldri. Í dag stundar hann nám við knattspyrnuakademíu fjölbrautarskóla suðurlands. Hann er þekktur fyrir mikla þrautseigju og keppnisskap innan vallarins og slær hjarta hans fyrir KFR. Hann var valinn efnilegasti leikmaður meistarafokks KFR á síðasta ári og átti hann ásamt liðinu góðu gengi að fagna á reycup mótinu þar sem þeir sigruðu B liðakeppnina.

Ívan Breki Sigurðsson

Ívan Breki hefur gert góða hluti og hlotið verðskuldaða athygli fyrir árangur og hæfileika sína í knattspyrnu. Hann lék yfir 20 leiki með meistaraflokk Selfoss sumarið 2022 og stóð sig með stakri prýði. Góð fyrirmynd innan vallar sem utan.

Katrín Eyland Gunnarsdóttir

Katrín keppti á fjölda móta á árinu bæði innan- og utanhúss með frábærum árangri. Á Meistaramóti Íslands landaði hún til að mynda 6 bronsverðlaunum, ásamt því að hafa náð glæsilegum árangri á innanhúsmótinu, unglingalandsmótinu og fleiri mótum

Katrín er metnaðarfull, dugleg og góð fyrirmynd.

Óðinn Magnússon

Óðinn hefur náð góðum árangri í skotfélaginu skyttunum. Hann landaði Íslandsmeistaratitli í loftskammbyssu og 50 metra liggjandi riffli ásamt því að setja Íslandsmet í þeirri grein.

Óðinn er afar efnileg skytta og hefur náð glæsilegum árangri og tekið miklum framförum.

Aron Liljar tók við viðurkenningum fyrir þá Óðinn Magnússon og Bjarna Þorvaldsson, Katrín Aðalbjörnsdóttir tók við viðurkenningu fyrir Andra Má Ólafsson, Elvar Þormarsson íþróttamaður ársins og Ívan Breki Sigurðsson

Katrín Eyland Gunnarsdóttir