Þann 17. júní síðastliðinn voru tilkynnt úrslit um íþróttamann ársins 2018 í Rangárþingi eystra.
Fjórir aðilar voru tilnefndir af íþróttafélögunum á svæðinu og var það svo í höndum Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar að velja úr þeim hópi. Íþróttamaðurinn skal vera 15 ára eða eldri og hafa stundað íþrótt sína með íþróttafélagi í sveitarfélaginu eða vera með lögheimili þar.  Þau fjögur sem hlutu tilnefningu voru: 

Andri Már Óskarsson - Golf

Andri Már er einn af bestu kylfingum landsins, hann hefur stundað golf frá unga aldri og hefur náð góðum árangi, hann æfir og spilar mikið,  hann kemur vel fyrir er yfirvegaður og kurteis, hvort heldur sé á golfvellinum eða í hinu daglega lífi. 

Birta Sigurborg Úlfarsdóttir - frjálsar íþróttir
Birta Sigurborg er mjög efnilegur íþróttamaður og stóð sig mjög vel í frjálsum íþróttum í sínum aldurshópi árið 2018. Hún æfir frjálsar íþróttir bæði á Hvolsvelli og á Selfossi og keppir fyrir Dímon og HSK. Hún bætir sinn persónulega árangur jafnt og þétt. Birta lenti yfirleitt á palli í þeim hlaupum sem hún tók þátt í á síðasta ári.  

Elvar Þormarsson - Hesta íþróttir
Var í úrslitum á nánast öllum mótum sem hann tók þátt í  þar með talið Íslandsmóti fullorðna og einnig á Landsmótinu sem haldið var í Reykjavík. Var einnig meðal þeirra hröðustu í skeiðgreinum á árinu 2018. 

Þormar Elvarsson - Knattspyrna
Þormar hefur þótt skara fram úr í hópi íþróttamanna sem æft hefur með KFR. Hann er jákvæð fyrirmynd hvað varðar metnað og þrautseigju í að bæta sig og efla á knattspyrnuvellinum. Hann hefur ávalt stundað æfingar sínar af kappi, hvort sem ér á eigin vegum eða síns félags. Hann er einstaklega fjölhæfur leikmaður og vinnusamur. Auk þess sem hann er hvetjandi og jákvæður leiðtogi.  Þormar leikur nú knattspyrnu á Selfossi og var, árið 2018, valinn bæði bestur og efnilegastur í 2. flokki karla.

 

Það fór svo að íþróttamaður ársins 2018 var valinn Elvar Þormarsson

Á myndunum má sjá þau fjögur sem tilnefnd voru og svo þá feðga Þormar og Elvar eftir að úrslit voru kunngjörð

Þormar og Elvar eftir að úrslit voru kunngjörð