Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn hafa sett á fót þróunarsjóð á sviði ferðamála sem ætlað er að styrkja ferðaþjónustu utan háannatíma eða allt árið, í samræmi við áherslur Ísland, allt árið sem er markaðsverkefni iðnaðarráðuneytis, Icelandair, SAF, Reykjavíkurborgar, Landsbankans, og SVÞ.

Hvatt er til samstarfsverkefna, þriggja eða fleiri fyrirtækja, sem geta haft veruleg áhrif á lengingu ferðamannatímans á viðkomandi svæði. Einkum er hvatt til samstarfsverkefna fyrirtækja í ferðaþjónustu og skapandi greina. Lögð er áhersla á samstarfsverkefni en það er ekki forsenda fyrir stuðningi.

Markmið

Sjóðurinn styrkir verkefni sem auka þjónustu við ferðamenn og/eða bæta við upplifun hans. Kaup á búnaði eru ekki á verksviði sjóðsins.

Áhersla er lögð á að verkefni hafi möguleika á að verða sjálfbærar og arðbærar afurðir sem byggja og draga fram sérstöðu svæða og lengja hefðbundið ferðamannatímabil.

Verkefni sem studd eru af þróunarsjóðnum skulu uppfylla eftirfarandi markmið:

 • Verkefnið miðar að lengingu ferðamannatímabils á tilteknu svæði.
 • Verkefnið leiði til aukinnar arðsemi fyrirtækja.
 • Til grundvallar verkefnis liggur verk- og rekstaráætlun
 • Verkefnið miði að því að auka þekkingu og hæfni fyrirtækja til að skapa upplifanir.
 • Gróf áætlun gerð um samráðsfundi og miðlun áfanga og niðurstaðna.

Framkvæmd

Nauðsynlegt er að geta metið árangur af hverju verkefni. Styrkþegar fylla út verkáætlun fyrir það verkefni sem sótt er um og skila til verkefnisstjóra ásamt þeim mælikvörðum sem á að nota í verkefninu (fjöldi afurða í boði, fjöldi gesta o.fl.).

Helstu verkþættir sem studdir eru:

 • Verkefnisstjórn
 • Greiningarvinna, undirbúningur og aðkeypt ráðgjöf
 • Þróun hugmynda
 • Önnur verkefni sem stuðla að lengingu ferðamannatímabilsins

Styrkir eru greiddir út eftir framvindu verkefnis og með því er í raun byggt inn i verkefnið mat á árangri. Einnig þurfa styrkþegar að skila inn áfanga- og lokaskýrslu.

Styrkupphæð

Í þróunarsjóðnum eru alls 70 milljónir króna og gert er ráð fyrir tveimur úthlutunum. Í hvorri úthlutun er stefnt að úthlutun styrkja að upphæð allt að 35 milljónum króna.

Samstarfsverkefni

 • Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja eða fleiri fyrirtækja mögulega með stuðningi stofnana, sveitarfélaga og/eða rannsóknarstofnana.
 • Í verkefninu komi fram skýr sýn á sameiginleg markmið aðila samstarfsins.
 • Í verkefninu sé langtíma hugsun sem miðar að a.m.k 3 ára samstarfi.

Skilyrði

 • Þátttakendur í samstarfsverkefni hafa allir skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf.
 • Verkefnin komi til framkvæmda á verkefnistíma Ísland allt árið.
 • Umsækjandi skal gera grein fyrir árangursmælikvörðum verkefnis.
 • Niðurstöður árangursmælinga verða gerðar opinberar en ekki verður hægt að rekja þær til einstakra verkefna.
 • Sjóðurinn styrkir verkefni að hámarki 50% af heildarkostnaði. Mótframlög geta m.a. verði í formi vinnu, aðstöðu ofl.

Næsti umsóknafrestur er til og með 23. október 2013

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar má nálgast hjá Hildi Sif Arnardóttur, upplýsingafulltrúa í síma 522 9267 eða á netfanginu hildur@nmi.is.