Landgræðsluverðlaunin afhent í 25. skipti í Gunnarsholti. Sigrún Magnúsdóttur umhverfisráðherra afhenti verðlaunin til fjögurra verkefna. Tvö þeirra eru í Rangárþingi eystra og eitt hjá nágrönnum okkar í Rangárþingi ytra. Fjórða verkefnið fór til fræðimanna um náttúru landsins. 


Í gær voru Landgræðsluverðlaunin afhent í Gunnarsholti, Sigrún Magnúsdóttir Umhverfisráðherra afhenti verðlaunin. Fjögur verkefni hlutu verðlaun í ár Sveinn Runólfsson Landgræðslustjóri sagði við athöfnina að verðlaununum væri bæði ætlað að vera viðurkenning fyrir ötult starf og að hvetja fleiri til dáða.  


Það voru grunnskólarnir á Hvolsvelli og Hellu sem fengu verðlaun fyrir metnaðarfull verkefni í tengslum við náttúruna, útikennslu, útivist, uppgræðslu, trjáplöntun, vistheimt, rannsóknir og fleira. 
Upprekstrarfélag í Fljótshlíð hlaut verðlaun fyrir uppgræðslu á Fljótshlíðarafrétti en unnið hefur verið markvisst að uppgræðslu á Fljótshlíðarafrétti frá árinu 1971. Bændur í Fljótshlíð hafa staðið að uppgræðslunni allar götur síðan með stuðningi m.a. frá sveitarfélaginu Rangárþingi eystra.
Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Valdimar Leifsson kvikmyndagerðamaður fengu verðlaun fyrir fræðslu og ötult starf í umhverfismálum í um 20 ár. Samvinna þeirra felst í gerð sjónvarpsefnis, þáttaraða og f.l. þar sem fjallað hefur verið um landgræðslu og önnur umhverfismál.


Verðlaunahafar, ásamt Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra og Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra, í Gunnarsholti í gær með verðlaunin, Fjöregg Landgræðslunnar.