Það eru hressar konur sem mæta í sundleikfimi í sundlauginni á Hvolsvelli en kennt er á mánudögum og miðvikudögum. Hópurinn samanstendur af konum úr allri Rangárvallasýslu og aldursbilið er breitt. Það er því líf og fjör í sundlauginni á þeim tíma sem spriklað er í leikfiminni. Síðastliðinn mánudag barst hópnum líka góð gjöf þar sem Sigurlín Óskarsdóttir hjá VÍS kom með buff á kollinn og er það nú einkennisbúningur hópsins. Sigurlín er einmitt ein af þeim sem stunda leikfimina af kappi. Það er Hjördís Guðrún Brynjarsdóttir sem stendur á bakkanum og leiðbeinir hópnum.