Hótel Fljótshlíð hefur staðið sig einna best af hótelum í Sveitarfélaginu þegar kemur að því að huga að umhverfinu. Hótelið er eitt af fáum á landinu sem fengið hafa Svans merkið, en það er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Eigendur hótelsins hafa sett sér þá stefnu að vinna markvisst að því að draga úr matarsóun á hótelinu og í viðtali við Fréttablaðið segja þær Arndís Soffía, hótelstjóri, og Elísabet Björney, umhverfisstjóri, að með því að vigta allan lífrænan úrgang eins og gert sé á Hótel Fljótshlíð fáist yfirsýn yfir hvort t.d. þær breytingar sem gerðar eru skili einhverjum árangri. Nú vegur lífrænn úrgangur frá hótelinu 10 kg á hverjum degi en með því að upplýsa gesti sína um þessa stefnu og hvert magn lífræns úrgangs væri náðist t.a.m. að lækka þyngd úrgangsins um 1-2 kg.

Aðrir þjónustuaðilar í sveitarfélaginu eru hvattir til að huga að þessum málefnum og margt smátt gerir eitt stórt.

Mynd úr Fréttablaðinu 25. maí sl. Elísabet Björney Lárusdóttir, umhverfisstjóri og Arndís Soffía Sigurðardóttir, hótelstýra.