Þann 14. október sl. var haldin afmælisveisla í Héraðsbókasafni Rangæinga á Hvolsvelli. Þá voru liðin nákvæmlega 60 ár síðan Sigurður Tómasson skrifaði fyrstu færsluna í fundargerðarbók bókasafnsins er stjórn þess kom saman að Stórólfshvoli 14. október 1956.

Í tilefni afmælisársins hafa þær Elísa Elíasdóttir, forstöðumaður bókasafnsins, og Margrét Guðjónsdóttir, bókavörður, haldið litlar afmælisveislur í hverjum mánuði en sl. föstudag var komið að aðalveislunni. Gestum var boðið upp á kaffi og afmælisköku, barnakór Hvolsskóla söng nokkur lög, Hjónabandið spilaði og söng og Ísólfur Gylfi Pálmason, hélt stutta ræðu fyrir hönd sveitarfélagsins en þar sagði hann að á engan væri hallað þó Markúsi Runólfssyni væri sérstaklega nefndur fyrir sína ötulu vinnu við að koma upp bókasafni.

Gerðar hafa verið gagngerar breytingar á safninu nú á afmælisári og m.a. hefur verið gerð glæsileg aðstaða fyrir börnin en Héraðsbókasafnið er einnig skólasafn Hvolsskóla.