Þá er haustið komið með sitt falllega haustveður, allavega þessa dagana. Það er gott að nýta þennann tíma til að taka til í garðinum og gera sér grein fyrir hvort skipulagið sé eins og við viljum hafa það. Eru plöntur á þeim stað sem við sættum okkur við? Má fjölga eða fækka plöntum? Hvernig væri að lífga upp á garðinn með laukplöntum sem blómstra fallegum litum eftir kaldan vetur? Ef garðurinn er eins og hann á að vera þá snúum við okkur að haustverkunum sem eru þó ekki tæmandi hér.

Skýling

Hver er ekki að drukkna í laufum? Það er tilvalið að raka saman laufin og setja þau ofan á viðkvæmar plöntur til skýlingar fyrir vetur konungi. Aðrar skýlingar eru strigapokar, grenigreinar og aðrar greinar sem að tilfalla í garðinum.

Laukar

Haustlaukar eru blómlaukar sem settir eru niður á haustin og blómstra í mars-apríl-maí eftir tegundum. Það ætti enginn að vera feiminn við að planta þeim út vegna vankunnáttu. Allar pakkningar eru vel merktar og tilgreina dýpt lauka við gróðursetningu. Þumalputtareglan er að setja lauk niður í jarðveginn sem svarar 3 x stærð lauksins, þ.e. ef laukur er 2 cm á hæð fer hann 6 cm niður. Haustlaukar eru til dæmis Túlípanar, Páskaliljur, Krókusar, Allium, Írisar og Liljur.

Snemmblómstrandi laukar eru t.d. Krókusar sem að blómstra í mars með sínum hreinum og fallegum litum. Krókusar eru góðir ekki bara í beð heldur líka í grasið og þegar þeir kíkja upp kollinum, segi ég að vorið sé komið!

Útplöntun

Á þessum tíma er upplagt að gróðursetja tré og runna. Það lífgar upp á garðinn að vera með mismunandi eiginleika plantna þegar horft er yfir hann. Blaðfallegar plöntur gefa okkur fallega haustliti svo sem græn, gul og yfir í mis rauð laufblöð. Lögun plantna eru frá því að vera jarðlægar og uppúr. Fjölbreyttir litir í blómum og ekki má gleyma berjum sem myndast eftir blómgun hjá sumum þeirra. Þær eru upplagðar fyrir fuglaunnendur og smáfólkið okkar.

Gott er að hafa í huga að margar plöntur úr garðinum má nota í skreytingu!

Guðrún Björk Benediktsdóttir

Garðyrkjustjóri Rangárþings eystra