Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri

Kæru íbúar Rangárþings eystra

Það er alltaf ánægjulegt að setjast niður í árslok og líta yfir árið sem er að líða. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég tók saman pistil ársins 2020, sem einkenndist að mestu af krefjandi verkefnum sem komu til af völdum heimsfaraldurs Covid-19 að sama yrði uppi á teningnum í árslok 2021. En sú er raunin og ég get ekki annað en glaðst yfir því hversu vel hefur verið tekið á málum á öllu vígstöðvum í Rangárþingi eystra, ef upp hafa komið smit, enda höfum við sloppið með ólíkindum vel frá hópsmitum hingað til. Því ber ekki síst að þakka ábyrgum íbúum sem hafa fylgt sóttvarnarreglum í hvívetna eins og raun ber vitni.

Áframhaldandi uppbygging hefur þó átt sér stað í Rangárþingi eystra og hér rís bæði fjöldinn allur af nýju íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúsnæði sem aldrei fyrr. Dugnaður, jákvæðni og þrautseigja íbúa er líka mjög aðdáunarverð, enda hefur ýmis ný atvinnustarfsemi litið dagsins ljós á árinu og þannig bæst talsvert í flóruna í verslun og þjónustu. Ráðist var í markaðsátak í lok sumars sem fékk afar jákvæða umfjöllun. Við getum verið endalaust stolt af okkar frábæra samfélagi og því góða fólki sem hér býr. Ávallt eru allir jákvæðir og boðnir og búnir að taka þátt í því sem stendur fyrir dyrum hverju sinni. Hér búa fyrsta flokks íbúar í fyrsta flokks umhverfi og af því megum við svo sannarlega vera montin af.

Gríðarlega mikil vinna fór í uppbyggingu á ferðamannastöðum í sumar, enda ekki áður fengist jafn hár styrkur til þess málaflokks. Áherslan í sumar var á Gluggafoss, Nauthúsagil og Kvernugil og hafa þessir staðir fengið umtalsverða andlitslyftingu og verður þeirri vinnu haldið áfram. Fegrun umhverfisins, bæði í dreifbýli og þéttbýli var einnig áhersluatriði á árinu. Skemmtilegt var að sjá þá andlitslyftingu sem byggingar í Hamragörðum fengu og hefur það vakið umtalsverða athygli. Íbúar og starfsfólk sveitarfélagsins voru ötulir við að taka til hendinni í þéttbýlinu og var ánægjulegt að sjá hversu mikla andlitslyftingu garðar og svæði fengu. Í sumar var víða unnið að grisjun á gömlum trjágróðri og nýjum plöntum plantað. Einnig hefur víða verið unnið að bættu aðgengi og umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem er verkefni sem aldrei lýkur og þarf ávallt að vera vakandi yfir.

Stærsta verkefnið okkar er þó án nokkurs vafa undirbúningur að byggingu nýja leikskólans þar sem tekin var fyrsta skóflustunga síðsumars við mikinn fögnuð okkar yngstu íbúa. Nú er jarðvegsvinnu þar lokið og verið að ganga frá samningum við byggingaraðila og förum við vonandi fljótlega á nýju ári að sjá bygginguna rísa hratt og örugglega – ungu kynslóðinni til heilla.

Það er ekki hægt að skrifa pistil í árslok án þess að minnast á kosningu um sameiningartillögu fimm sveitarfélaga sem fram fór síðla september mánaðar þessa árs. Sameiningartillagan var felld svo ekki varð úr sameiningu eins og allir vita, en sú vinna sem átti sér stað við samantekt gagna var gríðarlega mikil og lærdómsrík. Gögnin sem eftir liggja nýtast okkur vel til að rýna rekstur okkar sveitarfélags og gera enn betur og er slík vinna þegar farin af stað, enda gott að rýna bæði rekstur og stjórnsýslu reglulega því alltaf má gera gott enn betra.

Það er því yfir annasamt og lærdómsríkt ár að líta og ég geri það með mikilli gleði í hjarta þrátt fyrir ýmsar áskoranir sem eru óhjákvæmilegar í síbreytilegu umhverfi nútímans. Gleðjumst yfir þeim samverustundum sem við höfum átt þó að einhverjum hafi þurft að fresta, hætta við eða breyta að einhverju leyti.

Ég færi ykkur öllum mínar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og gæfuríkt komandi ár. Sérstakar þakkir vil ég senda öllu starfsfólki sveitarfélagsins hvar sem það hefur starfað, en með jákvæðni, elju og dugnaði hefur það hjálpað okkur öllum að láta samfélagið ganga áfram á ögrandi tímum.

Hjartans þakkir til allra íbúa fyrir góð samskipti og samvinnu á liðnum árum.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri

Sveitarstjóri