Heimsfrægir fjallgöngugarpar verða gestir á sérstöku Háfjallakvöldi Ferðafélags Íslands sem haldið verður í Hörpu, sunnudagskvöldið 12. mars. Tilefnið er 90 ára afmæli FÍ á árinu.
Stjörnur kvöldsins eru tveir af þekktustu fjallagörpum veraldar, þau Gerlinde Kaltenbrunner sem var fyrsta konan til að klífa alla 14 hæstu tinda veraldar án viðbótarsúrefnis og Peter Habeler sem var annar tveggja sem fyrstir klifu Everest, hæsta fjall heims, án viðbótarsúrefnis.
Fyrirlestur Gerlinde heitir Passion 8000 - Dream of a Lifetime og fyrirlestur Peters heitir Passion to Climb.
Auk þeirra Gerlinde og Peters munu Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson, læknar og forsprakkar Félags íslenskra fjallalækna sýna myndir og segja frá nokkrum íslenskum náttúruperlum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands setur fundinn og Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands slítur honum. Fundarstjórn er í höndum þeirra Sigrúnar Valbergsdóttur og Hugrúnar Halldórsdóttur.
Háfjallakvöldið er í Eldborgarsal Hörpunnar og hefst stundvíslega kl. 20. 
Aðgangseyrir er 1000 kr. og mun hann allur renna til Vina Þórsmerkur í göngustígagerð. Hér er hægt að kaupa miða.

Nánar um fyrirlesara kvöldsins
Gerlinde Kaltenbrunner 
 
Gerlinde er sennilega frægasta núlifandi fjallgöngukona í heiminum. Hún er austurrískur hjúkrunafræðingur en hefur í rúmlega þrjá áratugi stafað sem atvinnufjallgöngukona. Hún varð heimsfræg í ágúst 2011 þegar hún náði tindi K2 (8611 m.y.s.) í sinni sjöundu tilraun. Um leið varð hún fyrsta konan í heiminum til að klífa alla 14 hæstu tindu veraldar (sem allir eru yfir 8000 m.y.s) án viðbótarsúrefnis. Fyrir nokkrum árum var hún valin af National Geographic sem ein af fremstu ævintýrakonum og mönnum heims.
Gerlinde er frábær fyrirlesari og hefur ferðast um allan heim með fyrirlestur sinn Passion 8000 – Dream of a Lifetime, sem er prýddur stórbrotnum myndum af hæstu fjöllum heims. Hún er einnig þekkt fyrir störf sín að mannúðarmálum og er eftirsóttur fyrirlesari hjá fyrirtækjum um það hvernig hægt er að markmiðum sínum í lífinu. Þetta er í fyrsta skipti sem Gerlinde kemur til Íslands og er hún sérstakur heiðursgestur Háfjallakvöldsins.
Sjá nánar um Gerlinde: http://www.gerlinde-kaltenbrunner.at/en/ 
Hér að neðan er myndband frá National Geography um ferð Gerlinde á K2


Peter Habeler
 
Peter er einn frægasti fjallgöngumaður sögunnar en 8. maí 1978 varð hann ásamt Reinhold Messner fyrstur til að sigrast á hæsta fjalli heims, Everest (8848 m.y.s.) án viðbótarsúrefnis. Hann hefur auk þess klifið mörg af hæstu fjöllum jarðar og flesta af erfiðustu tindum og klettaveggjum Alpafjalla. Þrátt fyrir að vera kominn mitt á áttræðisaldur er hann enn á fullu í krefjandi fjallgöngum og fjallaskíðaferðum víða um heim.
Peter er frábær fyrirlesari og fyrirlestrar hans þykja mikið sjónaspil með samspili myndefnis og tónlistar. Í fyrirlestri sínum A Passion to Climb mun Peter segja frá göngu- og klifurferðum á marga af erfiðustu tindum Alpafjalla. Peter hefur áður komið til Íslands og haldið fyrirlestra fyrir fullu húsi.
Sjá nánar um Peter: https://en.wikipedia.org/wiki/Peter_Habeler

Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson
 
Ólafur Már og Tómas eru læknar og forsprakkar Félags íslenskra fjallalækna (FÍFL). Jafnframt hafa þeir um margra ára skeið verið virkir í starfi Ferðafélgs Íslands og staðið fyrir göngu- og fjallaskíðaferðum fyrir félagið um hálendi Íslands. Þeir eru einnig miklir áhugamenn um náttúruvernd og hafa verið ötulir talsmenn þess að fá sem flesta í fjallgöngu- og fjallaskíðaferðir.
Í fyrirlestri sínum munu þeir félagar sýna stórbrotnar ljósmyndir og myndbönd, m.a. drónaskot, frá helstu náttúrperlum Íslands, svo sem Kverkfjöllum, Vonarskarði, Þjórsárverum, Holuhrauni, Birnudalstindi og Ljósufjöllum á Snæfellsnesi.