Í sumar fékk Guðrún Guðjónsdóttir styrk frá Nýsköpunarsjóð námsmanna til að vinna hættumat um fimm ferðamannastaði í Rangárþingi eystra. Hættumatið vann Guðrún í samstarfi við sveitarfélagið Rangárþing eystra en Guðrún er meistaranemi í Umhverfisfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Afraksturinn er ýtarleg skýrsla sem nýtist til vinnu við skipulag, uppbyggingu og viðhald á þessum ferðamannastöðum. Staðirnir fjórir sem Guðrún vann hættumat á eru Landeyjasandur, Gluggafoss, Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og Skógafoss.

Fjallað hefur verið um niðurstöður hættumatsins í fjölmiðlum síðustu daga enda virkilega þarft verkefni. Nú hafa líka borist þær góðu fréttir að verkefnið er eitt af 13 styrktum verkefnum sem er boðið að koma og kynna verkefnið fyrir stjórn sjóðsins þann 8 desember n.k. Alls voru það 206 verkefni sem fengu styrk í sumar og því er þetta boð mikill heiður og staðfesting á hversu vel verkefnið var unnið. Eftir kynninguna verða 4-5 verkefni valin og tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands en þau verða afhent á Bessastöðum í janúar 2022. 

Hér má lesa Hættumat á ferðamannastöðum í Rangárþingi eystra