Rangárþing eystra er Heilsueflandi sveitarfélag og hluti að því er að hlúa að bættri heilsu íbúa, m.a. með fjölbreyttum möguleikum á útivist. Þegar fór að snjóa, loksins segja sumir, þá var ákveðið að þjappa niður braut fyrir þá sem vilja fara á gönguskíði og tók Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, það að sér að útbúa brautina. Sigurður Þór Þórhallsson, íbúi á Hvolsvelli, bjó til græju til að festa aftan í snjósleða til að leggja sporið og liggur það um túnið norðan við Króktún. Það er nokkuð ljóst að áhugi heimamanna á að svona braut sé til staðar er mikill því án þess að vita af sporgræju Sigurðar Þórs hafði annar íbúi samband við sveitarfélagið og hafði sá einnig útbúið samskonar græju. Reynt verður að halda brautinni við eins og mögulegt er meðan snjórinn helst og hún er að sjálfsögðu öllum opin.

Vinsamleg tilmæli eru til gangandi vegfarenda, hundaeigenda og þeirra sem eru að þeysa um á snjósleðum að passa upp á að fara ekki yfir svæðið þar sem brautin liggur því það skemmir sporið.