Á fundi sveitarstjórnar, fimmtudaginn 14. nóvember, var eftirfarandi bókun gerð um gömlu byggingarnar í Múlakoti


Bókun v. samþykktar um gamla bæinn í Múlakoti.
Sveitarfélagið Rangárþing eystra er tilbúið að vera einn af þátttakendum í stofnun hugsanlegrar sjálfseignarstofnunar  eða félags um gömlu byggingarnar í Múlakoti. Þarna er um að ræða  bæjarhúsin sem risu árin 1897-1946, rústir fjóss, hesthúss og hlöðu auk lystigarðsins sem kenndur er við Guðbjörgu Þorleifsdóttur og lystihúss sem stendur í garðinum. Í samþykktinni felst ekki skuldbinding um bein fjárframlög til verkefnisins. Hins vegar lýsir sveitarfélagsins sig reiðubúið til að stýra og greiða kostnað vegna deiliskipulagsvinnu á reitnum eða tryggja til þess fjárframlög. 
Með samþykktinni vill sveitarfélagið tryggja að svæðið og húsin verði aðgengileg almenningi og nýtist í þágu samfélagsins til eflingar menningartengdrar ferðaþjónustu  í héraði.  Sveitarstjórn lítur svo á að með stofnun sjálfseignarstofnunar eða félags um varðveislu staðarins greiði það fyrir styrkveitingum úr opinberum sjóðum, t.d. Húsafriðunarsjóði.  Slíkt eignarhald auðveldar jafnframt stuðning einstaklinga og stofnana við verkefnið.

Hvolsvelli 14. nóvember  2013.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra.