Enn einu sinni hefur sannast að í Rangárþingi eystra eru þær margar perlurnar, bæði náttúrulegar og uppbyggðar. Í breska blaðinu The Guardian í gær var gamla Seljavallalaugin valin meðal 10 bestu sundlauga í heimi og er þar í hópi heldur stærri lauga eins og Ólympíulaugarinnar í Sydney.

Seljavallalaugin er staðsett í Laugarárgili, innan við bæinn Seljavelli og er þar byggð utan í klett þar sem heitt vatn kemur niður. Björn J. Andrésson, í Berjaneskoti, var aðalhvatamaður þess að sundlaug yrði byggð á þessum stað. Hann fékk leyfi og stuðning bænda undir Eyjafjöllum með því að lofa þeim sundkennslu þegar laugin yrði tilbúin. Árið 1922 var hafist handa, laugin hlaðin með grjóti og torfi og mældist 9 m. löng og 4-5 m. á breidd. Það tók tvo heila daga að klára hleðsluna. Þremur dögum eftir að laugin var fullgerð hófst sundkennsla, 25 manns voru skráð á fyrsta námskeiðið og gisti fólk í tjöldum við hlið laugarinnar meðan á námskeiðinu stóð. Árið 1923 var svo ráðist í að byggja steinsteypta sundlaug, og var kletturinn þar sem heitt vatnið kemur niður, notaður sem einn af veggjum laugarinnar. Seljavallalaug er um 25 m. á lengd og 10 m. á breidd og var stærsta sundlaug landsins allt til 1936. Nú á dögum er hægt að fara í laugina sér að kostnaðarlausu en algjörlega á eigin ábyrgð. Laugin er hreinsuð einu sinni á sumri en fram að þeim tíma er Seljavallalaug þakin þykku slýi og því rétt að fara varlega. Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 fylltist laugin af ösku en snemmsumars 2011 kom hópur sjálfboðaliða og hreinsaði laugina með skóflum og gröfum. Seljavallalaugin er friðuð.

Heimildir teknar af Eyjafjöll.is