Fyrsta skóflustungan fyrir nýja leikskólabyggingu á Hvolsvelli var tekin í gær. Þau Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, Anton Kári Halldórsson, oddviti og Sólbjört S. Gestsdóttir, leikskólastjóri sáu um að taka þessa skóflustungu en þau voru þó alls ekki ein um verkið þar sem allir nemendur leikskólans voru mættir með skóflu í hönd og voru þau komin vel á veg með jarðvinnuna áður en yfir lauk. Börnin sungu einnig tvö lög sem þau voru búin að æfa fyrir tilefnið.

Leikskólinn verður 8 deildir en þó með möguleika á því að stækka upp í 10 deildir svo það verður vel rúmt um alla. Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka á móti 180 börnum þegar hann verður tilbúinn í byrjun árs 2023. Nýja leikskólabyggingin er staðsett við Vallarbraut og þá verður allt skóla- og íþróttasvæði á sama stað. Það er Páll V. Bjarnason sem hannar leikskólann ásamt Ólöfu Pálsdóttur og Spesían sér um jarðvegsvinnu fyrir bygginguna og voru þau Páll og Ólöf ásamt Lárusi Svanssyni frá Spesíunni viðstödd þessa fyrstu skóflustungu.