Veðurfarið hefur verið helsta umræðuefni íbúa sveitarfélagsins í sumar en þó er það einn hópur sem lætur ekki rigningu og rok á sig fá en það eru fótboltakrakkarnir sem æfa með KFR og svo sameiginlegu liði KFR/ÍBV. Yngri flokkar karla og kvenna hafa stundað æfingar af kappi og keppt á fjölmörgum mótum og staðið sig með miklum sóma. Nú um helgina er t.a.m Símamót í Kópavogi þar sem stelpur úr KFR í 5., 6. og 7. fl. keppa undir merkjum ÍBV.

Meistaraflokkur karla tekur þátt í 3. deild karla og eru núna í 7.sæti með 12 stig. Á heimasíðu KFR hefur verið fylgst með öllum leikjum sumarsins og lýsingar birtar þannig að enginn þyrfti að láta gengi liðsins framhjá sér fara. Heimaleikina spilar KFR á SS-vellinum á Hvolsvelli.

Allar upplýsingar um félagið, úrslit móta og myndir má finna á heimasíðu KFR og facebook síðu þeirra. Þessum síðum er vel haldið við og á félagið hrós skilið fyrir það.