Sunnudaginn 21. ágúst lögðu þrír vaskir hestamenn af stað frá Svínafelli í Öræfum og riðu leiðina sem Flosi Þórðarson Freysgoði og brennumenn hans riðu á sama degi haustið 1011 að Þríhyrningshálsum í Rangárþingi ( og þaðan að Bergþórshvoli í Landeyjum). Ferðin mun taka tvo daga. Lagt verður af stað frá Svínafelli um kl. 04:00 að morgni á sunnudeginum, riðið leiðina sem lýst er í Brennu-Njálssögu og gist í Skaftártungu. Þaðan verður haldið í bítið á mánudagsmorgni og riðið sem leið liggur norðan jökla (Fjallabaksleið syðri) og áætlað að koma að fjallinu Þríhyrningi á bilinu kl. 15:00 til 18:00.

Reiðmennirnir eru Hermann Árnason bóndi Hvolsvelli, Hákon Pétursson og Friðbjörn Garðarsson. Mun hver um sig hafa þrjá til fjóra hesta til reiðar. 

Ferðin er farin til að minnast reiðar Flosa og brennumanna, og til að sannreyna hvort hægt sé að ríða þessa leið á þeim tíma sem Njála greinir frá. Leiðarlýsingu Njálu verður fylgt í hvívetna. 

Í Njálu segir svo – og er það Flosi sem mælir:

„En drottinsdag, þá er átta vikur eru til vetrar, þá mun ég láta syngja mér messu heima og ríðan síðan vestur yfir Lómagnúpssand*. Hver vor skal hafa tvo hesta /.../. Ég mun ríða drottinsdaginn** og svo nóttina með. Annan dag vikunnar mun ég kominn á Þríhyrningshálsa fyrir miðjan aftan“ /.../. Ketill mælti: „Hversu má það saman fara að þú ríðir drottinsdag heiman en komir annan dag vikunnar á Þríhyrningshálsa?“ Flosi mælti: Ég mun ríða upp úr Skaftártungu og fyrir norðan Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland*** og má þetta endast ef ég ríð hvatlega.“ 

Þessi ætlan gekk eftir:  „... og komu um nónskeið annan dag viku**** á Þríhyrningshálsa.“

Í athugasemd um þessa ferð Flosa segir Ólafur Einar Sveinsson í útgáfu Njálu frá 1954: Það mun rétt að unnt sé að fara þessa leið á þeim tíma sem Flosi tilgreinir, enda sé riðið greitt tveim hestum til skiptis og ekki numið staðar nema hið allra minnsta. Leiðin milli byggða (frá Snæbýli í Skaftártungu að Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum) er talin 12 – 14 tíma reið. 

Við sjáum hvað setur.

*(nú Skeiðarársandur) **(drottinsdagur = sunnudagur) ***(Goðaland er nú annað landsvæði en greinir frá í Njálu) ****(mánudag) 

Farsími Hermanns er 894 2628 og munn hann svara honum á leiðinni ávallt þegar kostur gefst.