Í íþróttahúsinu á Hvolsvelli er spilað Ringó á föstudögum milli 20 - 21:30 undir stjórn Ólafs Elí Magnússonar. Flestir spilarar eru ungmenni milli 15 og 20 ára en Ringó er þó íþrótt sem fólk á öllum aldri getur spilað. Það skapast góð stemning í húsinu meðan spilað er, keppnisskapið er í botni en allt þó í mikilli góðmennsku og því er gaman að koma og spila hvort sem að um er að ræða byrjanda eða lengra komna. Tímar í íþróttahúsinu fyrir íþrótt eins og Ringó eru mjög mikilvægir og um góða forvörn að ræða eins og sést á þeim fjölda sem mætir og skemmtir sér saman.

Á heimasíðu UÍA má finna þessa lýsingu á Ringó:

Ringó svipar nokkuð til blaks en í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum. Spilað er á blakvelli í fjögurra manna liðum og þátttakendur þurfa ekki að búa yfir neinni sérstakri kunnáttu eða getu annarri en að geta gripið með annarri hendi og kastað yfir netið. Ringó er því frábær íþrótt fyrir fólk á öllum aldri og skemmtilegt hópefli fyrir fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði.