Ásdís Stross fiðluleikari og Ásta Haraldsdóttir píanóleikari halda tónleika í Selinu á Stokkalæk sunnudaginn 16. júní klukkan fjögur síðdegis. Þær leika tilbrigði eftir Mozart, útsetningar Helga Pálssonar á fjórum íslenskum þjóðlögum, Rómönsu eftir Árna Björnsson og Húmeresku eftir Þórarin Jónsson. Auk þess leikur Ásta þrjú lög fyrir píanó eftir Grieg, Gamlar dansvísur eftir Bartók og tvö stutt verk eftir Jón Leifs sem byggð eru á íslenskum þjóðlögurm. Veitingar verða á tónleikunum og eru miðapantanir í síma 8645870.

Ásdís Stross nam fiðluleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónlistarháskólanum í München. Hún starfaði um árabil í Sinfóníuhljómsveit Íslands og var þá um skeið þriðji konsertmeistari hljómsveitarinnar. Ásdís var meðal þeirra sem skipuðu kammersveitina Reykjavík Ensemble og tók þátt í tónlistarflutningi Kammerensamble Gauting í München 1982-2011.

Ásta Haraldsdóttir nam píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk píanókennaraprófi þaðan árið 1999. Hún var um árabil meðleikari með kórum Margrétar J. Pálmadóttur og tók þátt í fjölda tónleika hérlendis og erlendis. Vorið 2012 lauk Ásta kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar og starfar nú sem píanókennari, organist og píanóleikari.