Ferðasaga Hermanns Einarssonar á topp Kilimanjaro 2015

Þann 24. janúar 2015  héldu Íslenskir Fjallaleiðsögumenn með Leif Örn Svavarsson í broddi fylkingar til Afríku til að ganga á fjallið Kilimanjaro en það er hæsta staka fjall í heimi og er (5895m). Fjallið er í eintaklega fallegu landslagi og útsýnið af fjallinu stórkostlegt. Þetta var sjöundi álfutindur Leifs og taldi hópurinn átta manns sem voru á ýmsum aldri. 
Ég ætla hér að deila með lesendum upplifun minni af þessari ferð og segi frá því sem við tókumst á við og upplifðum í þessari skemmtilegu ferð til Afríku. 

Aðdragandi og lýsing


Til þess að tryggja bestu hæðaraðlögun byrjuðum við á því að ganga á Merufjall (4566m), sem er ekki síður tilkomumikið fjall en Kilimanjaro fjall (5895m) en fjöllin tvö eru á sama landsvæði. Við hófum ferðina með 4ja daga göngu á Merufjall áður en við lögðum í risann sjálfan, Kilimanjaro fjall. Í hlíðum Merufjalls vorum við með útsýni á Kilimanjaro auk þess sem við sáum til ýmissa villtra dýra í sínu náttúrulega umhverfi. Gangan á Merufjall var góður undirbúningur fyrir Kilimanjaro ekki síst með tilliti til hæðaraðlögunar en eins fram hefur komið þá er Kilimanjaro hæsta fjall Afríku þar sem það gnæfir í 5895m hæð. Fjallið er staðsett á landamærum Tansaníu og Kenýa. Ganga á Kilimanjaro leiddi okkur um ólík gróðurbelti og vistkerfi, í gegnum regnskóga undirhlíðanna upp í gróðursnautt landslagið sem einkennir efri hlíðar fjallsins. Nafnið Kilimanjaro þýðir á Swahili „Skínandi Fjallið“ og var fyrst gengið á það, svo vitað sé, árið1889. Kilimanjaro er hæsta staka fjall í heiminum og rís það um 4600m yfir nánasta umhverfi sitt og býður því upp á stórkostlegt útsýni. Sagan segir að af tindinum megi greina kringlulögun jarðar með berum augum.
Merufjall er eldfjall staðsett 70 km vestur af Kilimanjaro. Síðasta eldgos átti sér stað fyrir u.þ.b. 100 árum, en fyrir 8000 árum var geysilegt hamfaragos sem sprengdi nánast alla austuhlíð fjallsins. Merufjall er miðpunktur Arusha þjóðgarðsins og skógivaxnar hlíðar fjallsins eru heimkynni fjölda tegunda villtra dýra og þar er líka að finna yfir um 400 ólíkar fuglategundir. Gangan á Merufjall er á allra færi og kjörin til þess að aðlagast hæð áður en gengið er á Kilimanjaro.  

Að ganga á hæsta fjall í heimi

Þann 24. janúar lögðum við af stað frá Keflavík, flogið var til London og þaðan til Naróbí í Kenýa. Frá Naróbí flugum við til Kilimanjaro International Airport í Tansaníu. Við ókum til borgarinnar Arusha þar sem við gistum á hóteli fyrstu nóttina.
Fyrsta fjallgangan okkar hófst þann 26. janúar. Við ókum að Momella hliði þar sem við reimuðum almennilega á okkur skóna og gengum um undirhlíðar Merufjalls upp í Maria Kamba skálann þar sem við gistum fyrstu nóttina, þetta var góður skáli í 2500 metra hæð. Á leiðinni sáum við m.a. gíraffa og sebrahesta bregða fyrir en þarna vorum við á heimaslóðum þessara dýra. Þann 27. janúar gengum við í 6 klukkutíma,  áfram var haldið upp hlíðar Merufjalls sem er eldfjall sömu gerðar og Mt. St. Helen á vesturströnd Bandaríkjanna. Þar má sjá menjar um svipuð hamfaragos í Merufjalli og við þekkjum frá St Helen. Við námum staðar í Söðulkoti (Saddle Hut), skála í 3820 m hæð. Við vorum komin þangað um hádegi. Þaðan var farið í stutta göngu á Litla Merutindinn.
Næsta dag, 28. janúar tókum við daginn snemma, vöknuðum kl. 24:00 (miðnætti) til að ná sólarupprásinni kl.06 og gengum á hátind Merufjalls.  Þaðan nutum við mikilfenglegs útsýnisins yfir til Kilimanjaro fjall. Þarna gnæfir Uhuru við himin, tindurinn sem við ætlum okkur að standa á innan tíðar. Útsýni yfir gíg Merufjalls og gresjurnar í kring fyllu okkur lotningu og stolti yfir afreki okkar. Þegar allir höfðu fengið nægju sína af útsýni héldum við niður á við og töltum í Maria kamba skálann þar sem við gistum fyrstu nóttina. Þann 29. janúar gengum við í 12 klukkutíma, við héldum áfram að lækka okkur og komum að Momella hliðinu þar sem bíll beið okkar og flutti okkur til borgarinnar Moshi.  Þar gistum við á hóteli og nutum þess að komast í sturtu og fá sér einn öl. Á Meru fjalli voru okkur til aðstoðar samtals16 manns en það voru, einn vopnaður þjóðgarðsvörður, tveir leiðsögumenn,   tveir kokkar, tveir þjónar og 11 burðarmenn. 
Þann 30. janúar hófst ganga okkar á Kilimanjaro fjall, hæsta fjall álfunnar sem við höfum eingöngu virt fyrir okkur úr fjarlægð hingað til. Við ókum að Machame hliðinu (1800m), opinberum upphafspunkti fjallgöngunnar, þar sem gengið var frá leyfum og búnaði dreift á burðarmenn.
Fyrsta dagleiðin leiddi okkur í gegnum regnskóg þar sem hægt var að koma auga á ýmsar framandi fuglategundir og líka apa. Eftir um 4-5 klst göngu komumst við út úr laufþykkninu og námum skömmu síðar staðar við Machame skálann (3000m) þar sem við komum okkur fyrir í tjöldum.
Þann 31. janúar héldum við áfram upp til Shire (3800m) og gengum um dæmigert alpalandslag, þar sem koma mátti auga á kunnuglegar plöntur eins og hvönn og lyng. Á þessari dagleið fundum við fyrsta almennilega nasaþefinn af Kibo, hásléttunni sem Uhuru tindur situr á.

Eftir 4-5 klst göngu komum við í náttstað og höfðum það náðugt í tjaldbúðunum.
Þann 1. febrúar var gengið upp að Hraunturninum (Lava tower, 4500m) sem er hæsti punktur dagleiðarinnar og þeir sem vildu gátu klifið turninn. Landslagið varð grófara eftir því sem ofar dró og því var tiltekinn léttir að lækka sig aftur niður og feta stíga þar sem framandi þykkblöðungar bera við himin. Þykkblöðungar þessir hafa yfir sér einhvern ævintýrablæ og virðast á stundum hálf manneskjulegir. Við gistum í tjaldbúðunum Barranco (3950m), eftir um 6-7 klst göngu.
Þann 2. febrúar fór að styttast í toppinn og dagleiðin í dag gat eins verið á fjöllum Íslands, enda fór afskaplega lítið fyrir gróðri. Við þokumst upp að Barafu (4600m) þar sem við komum okkur fyrir í tjöldum og bíðum spennt eftir því að hefja lokaáfangann á toppinn. Við gengum í 6-7 klst þann 3. febrúar, þetta var langur dagur sem við tókum snemma. Um miðnætti var borin fram morgunhressing. Klukkan 01 lögðum við af stað með ennisljós undir stjörnubjörtum himninum. Leiðin upp á Stellu strýtu (5700m) tók um 4-5 klst og ógleymanlegt var að standa á Kibo sléttunni og horfa á sólina koma upp. Frá Stellustrýtu var u.þ.b. klukkustundar gangur að Uhuru, Frelsistindi sem er hæsti tindur Kilimanjaro fjalls. Eftir að hafa notið útsýnis og hátindavímunnar í -6 stiga frosti og vindi lögðum við af stað niður í Barafu. Þar beið okkar hressing áður en við héldum áfram niður fjallið áleiðis að Mweka hliðinu. Við gistum í Mweka tjaldbúðunum þessa seinustu nótt á Kilimanjaro. Gangan þennan dag var 17 klst, upp um 1000m og  niður um 3000m.
Þann 4. febrúar töltum við niður að Mweka hliði þar sem okkar beið bíll sem flutti okkur til Aishi og á hótel fyrir síðustu nóttina okkar í Afríku. Við vorum komin upp úr hádegi á hótelið og vorum fegin að komast í sturtu eftir 6 daga og ekki skemmdi að fá einn öl á sundlaugarbakkann, hvað er betra? jú að standa á toppi Kilimanjaro. Um kvöldið var svo sameiginlegur kvöldverður. Það þurfti að bera allt með á fjallið t.d. vatn, mat, tjöld stóla, borð og fleira. Á ferð okkar á Kilimanjaro fjall vorum við með 28 aðstoðarmenn, einn vopnaðan þjóðgarðsmann, einn yfirleiðsögumann, fjóra aðstoðarleiðsögumenn, tvo kokka, tvo þjóna, tvo klósettmenn, sautján burðarmenn. Þetta var allt yndislegt fólk og reyndist okkur einstaklega vel. 
Þann 5. febrúar, sem var jafnframt okkar síðasti dagur í Afríku, var afslöppun á sundlaugarbakkanum og farið í sundlauginni til að kæla sig hitinn var um 30-35 stig.  Heimferð frá Afríku var þann 6. febrúar um miðjan dag og lentum við í Keflavík sama dag um klukkan 16.00.

Hermann Einarsson Hvolsvelli 2015