Þann 13. júní síðastliðinn fylgdu átta nemendur úr 7.-10. bekk, forseta Þýskalands, hr. Frank-Walter Steinmeier og forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni, að Sólheimajökli.

Dagurinn hófst á LAVA þar sem þau hittu forsetana og fylgdarlið og kynntu stuttlega fyrir þeim verkefni sem hefur verið í gangi í 9 ár. Verkefnið, eins og mörgum er kunnugt, snýst um að mæla hop Sólheimajökuls og verður tíunda mælingin gerð nú í haust.

Mælingin sem tekin var haustið 2018 sýndi að jökullinn hefði hopað um 379 metra síðan haustið 2010.

Krakkarnir röltu svo með hópinn að rótum jökulsins, sögðu frá og svöruðu spurningum, bæði forsetanna og fjölmiðla. Það er mikill heiður fyrir Hvolsskóla að fá að kynna þetta verkefni fyrir þessum hópi og leystu börnin þetta vel af hendi. Þeim til fylgdar voru Jón Stefánsson verkefnastjóri Grænfánans sem leitt hefur þetta verkefni og Birna Sigurðardóttir skólastjóri.

 

Meðfylgjandi mynd tók Elín Rósa Sigurðardóttir.