Á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda sem haldin var í nóvember veitti skrifstofa Ferðaþjónustu bænda 6 bæjum innan samtakanna viðurkenningar og er það í fyrsta sinn sem skrifstofan veitir verðlaun sem þessi. Viðurkenningar voru veittar í tveimur flokkum. Í flokknum Framúrskarandi ferðaþjónustubær 2011 fengu eftirfarandi viðurkenningu: Dísa og Óli í Skjaldarvík í Eyjafirði, Hulda og Gunnlaugur frá Gistihúsinu Egilsstöðum og Margrét og Jóhann Helgi í Vatnsholti við Villingaholtsvatn. Þessi viðurkenning er veitt fyrir einstaka frammistöðu á árinu og byggist matið á umsögnum gesta auk þess sem leitað var umsagna erlendra ferðaskrifstofa. Þá var einnnig horft til þeirra gæða sem staðurinn stendur fyrir að mati starfsfólks skrifstofunnar.

Í flokknum Hvatningaverðlaun Ferðaþjónustu bænda fengu eftirfarandi viðurkenningu: Helena og Knútur í Friðheimum við Reykholt, Stella og Gísli í Heydal í Mjóafirði og Bergþóra í Fögruhlíð í Fljótshlíð. Hvatningaverðlaunin eru veitt félagsmönnum fyrir einstaka og vel útfærða hugmynd og frumkvæði að uppbyggingu í ferðaþjónustu sem miðar að skemmtilegri og innihaldsríkri upplifun fyrir gestina.

Það eru margir mjög frambærilegir staðir innan Ferðaþjónustu bænda og er það von starfsfólks skrifstofunnar að þessar viðurkenningar sem ætlunin er að veita árlega verði öðrum hvatning til þess að vanda til verka og skara fram úr á sínu sviði – hver á sinn einstaka hátt!


Sjá rökstuðning fyrir viðurkenningum hér fyrir neðan:

Í flokknum „Framúrskarandi ferðaþjónustubær 2011“:


Dísa og Óli í Skjaldarvík: Þau ákváðu fyrir tæpum tveimur árum að hætta að vinna fyrir aðra og gerast ferðaþjónustubændur. Með mikilli framkvæmdagleði, hugvitssemi, brennandi áhuga, ríkri þjónustulund og góðri eldamennsku hafa þau náð að bræða hjarta gestanna. Staðurinn er eftirsóknarverður, fallegur og mikill fengur fyrir ferðamanninn að dvelja hjá fjölskyldunni í Skjaldarvík.

Hulda og Gunnlaugur á Gistihúsinu Egilsstöðum: Einstaklega snoturt sveitahótel þar sem andi gamalla tíma svífur yfir vötnum. Öll umgjörð hótelsins, bæði innanhúss og utan er til fyrirmyndar og undirstrikar nýi veitingasalurinn sem áður var íbúð þeirra hjónakorna hversu skemmtilegt og fágað hugmyndaflug þau hafa, en þar fléttast m.a. saman saga hússins, gamlar bækur með upplýsingum um fólkið á bakvið hráefnið sem er jú úr héraði o.s.fv.

Margrét og Jóhann í Vatnsholti v/Villingaholtsvatn: Þau keyptu sér jörð austan við Selfoss, tóku allt í gegn; íbúðarhúsin tvö fengu andlitslyftingu, mokað var út úr útihúsunum og kartöflukofanum. Nú síðast komu þau upp herbergjaálmu og stækkuðu veitingasalinn. Þau hófust handa brosandi og full af eldmóði og ásamt öllum húsdýrunum á staðnum hafa þau náð að heilla gestina upp úr skónum.

-----------

Í flokknum „Hvatningaverðlaun Ferðaþjónustu bænda 2011:

Helena og Knútur í Friðheimum, Bláskógarbyggð: Garðyrkjubændur og hestaáhugafólk sem hafa útbúið skemmtilegan kokteil sem endurspeglar það sem þau standa fyrir sjálf. Þau, ásamt börnum sínum, bjóða upp á hestasýningar fyrir hópa á fjölmörgum tungumálum en þau eru auk þess í verkefninu Opinn landbúnaður þar sem gestum gefst kostur á að kíkja í gróðurhúsið. Nú standa þau í stórræðum, þau eru að stækka gróðurhúsið um 2000 m2 (verður þá í allt yfir 5000 m2). Í nýbyggingunni er gert ráð fyrir móttökusvæði fyrir gesti og hugmyndin er að gefa gestum möguleika á að bragða á gómsætri tómatsúpu í gróðurhúsinu – Það gerist ekki meira „beint frá býli“ en það! Þess má geta að öll umgjörð staðarins er til fyrirmyndar og á sumrin er hægt að koma við heim á hlaðið og næla sér í ferska tómata í sjálfsafgreiðslunni!

Stella og Gísli í Heydal í Mjóafirði: Þetta eru stórhugar á Vestfjörðum sem eru á góðri leið með að byggja upp hinn sannkallaða ævintýradal í Heydal, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi allan ársins hring. Áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytta náttúrutengda afþreyingu á staðnum, s.s. gönguferðir, hestaferðir, kajakferðir og selaskoðun. Á markvissan hátt hafa þau einnig verið að vinna að lengingu

ferðamannatímabilsins t.d. með því að bjóða upp á norðurljósaferðir á Vestfirðina. Þau leggja mikið upp úr samstarfsverkefnum og má þar t.d. nefna samstarf við Vatnavini varðandi hugmyndir um nýtingu á heita vatninu. Lifandi verkefni hér á ferðinni og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Bergþóra í Fögruhlíð, Fljótshlíð: Það er fámennt en góðmennt hjá henni Bergþóru. Húsið er ekki stórt en það er svo mikil hlýja og alúð sem tekur á móti gestum. Umgjörðin er falleg og hlýleg, mikill metnaður í matargerð og það er stemning að sitja við eldhúsborðið og spjalla við húsfrúna. Frá upphafi var Bergþóru ljóst að afþreyingin er mikilvægur þáttur í ferðaþjónustunni og var hún fyrst ferðaþjónustubænda til að setja upp pakkaferð með hjólaferðum og gönguferðum á netið hjá okkur. Til þess að nýta þekkingu sína og reynslu sem geðhjúkrunarfræðingur hefur hún áhuga á að bjóða upp á sérstök námskeið sem verður spennandi að fylgjast með og taka þátt í að markaðssetja.

 

Viðurkenningar til ferðaþjónustubænda_nov_2011[1].pdf