Nú nálgast Öskudagurinn sem venjulega er einn af skemmtilegri dögum skóladagatalsins hjá grunnskólabörnum. Enn eru óvenjulegir tímar í samfélaginu og þar sem að Öðruvísi Öskudagur tókst afar vel í fyrra þá hafa fyrirtæki í sveitarfélaginu sent fyrirspurnir um hvort hægt væri að endurtaka leikinn í ár. Hvolsskóli hefur tekið vel í það og er til í að halda utan um öskudaginn innan veggja skólans. Grunnskólabörnin munu því ekki ganga um milli fyrirtækja á Öskudaginn heldur koma fyrirtækin til móts við þau inni í skólanum þar sem settir verða upp básar merktir hverjum fyrir sig.

Þeir rekstrar- og þjónustuaðilar sem vilja taka þátt eru beðnir um að láta vita hjá markaðs- og kynningarfulltrúa á netfangið arnylara@hvolsvollur.is og koma síðan varningi í skólann þriðjudaginn 1. mars.