Í dag, 8. nóvember, er ,,Dagur gegn einelti". Einelti hefur verið lýst sem síendurteknu andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi. Einelti er mjög neikvætt og meiðandi fyrirbæri. Sá sem verður fyrir einelti fyllist ótta og uppgjöf og er ekki fær um að verja sig eða rísa undir álaginu.

Einelti er alvarlegt vandamál ef það kemur upp í skólum og á vinnustöðum sem stjórnendum ber að taka á. Afleiðingar þess eru ekki aðeins slæmar fyrir þolendurna heldur einnig alla þá sem að því koma. Einelti getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan þeirra sem verða fyrir því, starfsánægju, metnað, fjarvistir og félagslegt umhverfi.

 Einelti birtist í mörgum myndum, það getur verið: (tekið af heimasíðu Hvolsskóla)

        - Líkamlegt: Barsmíðar, spörk, hrindingar.

        - Munnlegt: Uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni. 

        - Skriflegt: Tölvuskeyti, sms – skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar.

        -  Óbeint: Baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi. Augngotur og svipbrigði.

        -  Efnislegt: Eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar.

        -  Andlegt: Þegar barnið er þvingað eða hvatt til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn vilja þess.

Kynnið ykkur endilega vefsíðuna www.gegneinelti.is til frekari upplýsinga.

null