Ljósleiðari, 2. áfangi
Nú er lokið tengingu ljósleiðara til lögbýla og staða með atvinnustarfsemi á eftirtöldum svæðum:

-           Fljótshlíð
-           Vallarkrók
-           Hluta A-Landeyja

Skráning þeirra staða sem tengdir hafa verið stendur yfir hjá Mílu, sem mun reka ljósleiðarakerfið.  Að lokinni þeirri skráningu geta notendur á þeim stöðum sem tengdir hafa verið pantað þjónustu hjá þeim þjónustuveitanda sem þeir kjósa.
Míla mun birta upplýsingar um notendur á vef sínum 22. nóvember fyrir Fljótshlíð og Vallakrók, en 27. nóvember fyrir þann hluta A-Landeyja sem lokið hefur verið við að tengja.


Leiðbeiningar um pöntunar- og tengingaferlið:

1.         Notandi pantar þjónustu frá því fjarskiptafyrirtæki (þjónustuveitu) sem hann kýs að versla við.  Á vef Mílu, www.mila.is er hægt að skrifa inn nafn tengistaðar og finna út hvort staðurinn er tilbúinn til þess að tenging geti farið fram.  Ef staðurinn er tilbúinn til tengingar við þjónustuveitu þá birtast skilaboðin “Ljósleiðari í boði – Hámarkshraði 100 Mb/s”.
2.         Þjónustuveita pantar ljósleiðarasamband frá rekstraraðila ljósleiðarakerfisins, Mílu.
3.         Ljósleiðaratengingin er afgreidd og þjónustuveitanda er tilkynnt um það.
4.         Starfsmaður þjónustuveitanda, eða starfsmaður á vegum Mílu heimsækir notandann og setur upp nauðsynlegan endabúnað í húsakynnum notandans.  Í sumum tilfellum getur þjónustuveitandi sent notanda búnaðinn, notandinn tengir hann þá sjálfur eða fær aðstoð fagmanna.
5.         Þjónustan er tilbúin.

Almennt gildir að ljósleiðarakerfi sem hafa fengið ríkisstyrk skulu vera opin öllum þjónustuveitendum og fulls jafnræðis skal gætt. Samkeppni milli þjónustuveitenda er ætlað að tryggja að notendur njóti alltaf hagstæðustu kjara.