Ráðningar hjá sveitarfélaginu. 

Búið er að ráða í tvær stöður hjá sveitarfélaginu Rangárþingi eystra, annars vegar í starf skipulags- og byggingarfulltrúa og hinsvegar í starf skrifstofu- og fjármálastjóra. Ráðningarskrifstofan Intellecta sá um framkvæmd við báðar ráðningar. Alls sóttu 9 aðilar um stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa og 7 aðilar um stöðu skrifstofu- og fjármálastjóra. 

Guðmundur Úlfar Gíslason, í Glámu, Fljótshlíð, hefur verið ráðinn sem byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra og tók við starfinu af Antoni Kára Halldórssyni. Úlfar hóf formlega störf þann 1. október s.l. og er starfsstöð hans að Austurvegi 4. Aðstoðarmaður byggingar- og skipulagsfulltrúa verður áfram Ólafur Rúnarsson. Úlfar er með MSc próf í byggingarverkfræði með sérhæfingu í mannvirkjahönnun og hefur starfað sjálfstætt sl. ár. Kona Úlfars er Guðlaug Ósk Svansdóttir, ráðgjafi hjá Háskólafélagi Suðurlands, og eiga þau þrjú börn.

Margrét Jóna Ísólfsdóttir, á Uppsölum, hefur verið ráðin sem skrifstofu- og fjármálastjóri Rangárþings eystra og tekur hún við starfinu af Ágústi Inga Ólafssyni þann 15. nóvember nk. Margrét er viðskiptafræðingur að mennt og hefur síðastliðin ár gegnt stöðu hótelstjóra Hótel Fljótshlíðar í Smáratúni. Maður Margrétar er Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS og eiga þau tvær dætur.

Rangárþing eystra býður þau Úlfar og Margréti hjartanlega velkomin til starfa.