Laugardaginn  18. ágúst kl. 15.00 munu bræðurnir Bjarni og Einar Þór Guðmundssynir syngja íslensk einsöngslög og dúetta við undirleik Guðjóns Halldórs Óskarssonar í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð.

Bjarni og Einar eru fæddir á Hellu í Rangárþingi ytra og ólust þar upp. Þeir stunduðu söngnám í Reykjavík en héldu síðar báðir til framhaldsnáms í Hollandi. Bjarni lauk Bachelor-prófi frá Tónlistarháskólanum í Utrecht 2015 undir leiðsögn Jóns Þorsteinssonar en Einar Þór stundar nú bacherlor-nám hjá Rítu Dams við Tónlistarháskólann í Den Haag. Guðjón Halldór starfar sem orgelleikari, píanókennari og kórstjóri í Rangárþingi eystra.
Á efnisskrá þeirra verða mörg þekktustu einsöngslög og dúettar íslenskra tónskálda, t.d. Nótt eftir Árna Thorsteinsson, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson, Sprettur og Sverrir konungur eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Einnig flytja þeir þrjú lög úr lagaflokknum Gunnar á Hlíðarenda eftir Jón Laxdal. 

Að loknum tónleikunum verður boðið upp á kaffi.
Aðgangseyrir 2000 kr.

Tónleikarnir njóta stuðnings frá SASS, FÍH og Tónlistarsjóði.