Nú hefur verið lokið við að stika gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Það er Björgunarsveitin Dagrenning sem hefur haft veg og vanda að þessu verkefni og hér fyrir neðan má lesa pistil um verkefnið eftir Þorstein Jónsson formann Björgunarsveitarinnar og meðfylgjandi eru myndir sem Þorsteinn tók meðan á verkefninu stóð.


Fimmvörðuháls, þriggja ára verkefni við stikur lokið.
  Í þrjú ár hefur Björgunarsveitin Dagrenning unnið að því verkefni að koma stikum á gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls sem er 26 kílómetra löng. Í þessum skilgreinda áfanga voru settar niður um 280 nýjar stikur, allar stikur á leiðinni blámálaðar og sett númer á þær.
  

Gönguleiðin  frá Skógum að göngubrú yfir Skógá ,um 7 km. hefur aldrei verið stikuð áður. Sett voru upp upplýsingaskilti við Skógafoss og við göngubrúnna, ásamt því að á tveimur stöðum á milli þessara staða voru settar upplýsingar um fjarlægðir til beggja enda. Þá var gert við handriði á göngubrú, en það brotnaði undan snjóþunga í vetur.
  

Gönguleiðin frá brú eftir vegslóða upp að Baldvinsskála var stikuð af Baldvin sjálfum  fyrir fjöldamörgum árum og voru ekki margar orðnar eftir. Þar var því brýn þörf á endurnýjun.
  

Kaflinn frá Baldvinsskála og niður á Morinsheiði er hættulegasti kafli leiðarinnar og þar hefur Bragi Hannibalsson ásamt fjölskyldu og vinum unnið um árabil að koma niður stikum og hlaða að þeim þar sem þess er þörf. Sett var upp upplýsingarskilti við eldstöðvarnar Magna/Móða.
 

 Frá Morinsheiðinni og niður í Strákagil hafa „Vinir Þórsmerkur“ staðið fyrir stikun. Stikur alla leiðina eru nú blámálaðar og er aðal gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls blá á göngukortum, en hliðarstígar rauðmerktir.

  Sett voru númer á allar stikur og tekið hnit á þeim frá Skógum og niður í Bása. Þetta var gert svo auðveldara væri fyrir björgunarsveitarmenn og aðra viðbragðsaðila að staðsetja fólk sem lenti í vandræðum á leiðinni og væri ekki með staðsetningartæki. Mjög oft hefur borið á því að staðsetning á viðkomandi er óljós og hefur þá þurft að leita marga kílómetra áður en það finnst. Þá verður einnig auðveldara að átta sig á því hvort fara eigi eftir fólki frá Þórsmörk eða frá Skógum. Hver mínúta getur skipt máli td. ef um hjartabilun er að ræða.

Stika Nr.1  var sett fyrir ofan tröppurnar við Skógafoss, um Nr. 140 við göngubrú yfir Skógá, Nr.260 við Baldvinsskála, Nr.340 við Bröttufönn, Nr.444 við tröppur í Strákagili og Nr. 460 á tjaldstæðum í Básum. Að meðaltali eru því 56 metrar á milli stikna þó reyndin sé sú að lengra er á milli við upphaf og þéttara þegar komið er upp í þoku.

  Verkefnið var unnið í samvinnu við Rangárþing eystra, Kötlu jarðvang, Vini Þórsmerkur, Bróðurhöndina Eyjafjöllum og Ferðamálaráð.

Björgunarsveitin Dagrenning þakkar öllum þeim sem komu að verkefninu,
Þorsteinn Jónsson form.