Þetta er sjöunda árið í röð sem Njála er lesin í tilefni af Degi íslenskrar tungu og hefst lesturinn kl. 8:15 að morgni og lýkur kl. 19:00. Lesturinn er brotinn upp stöku sinnum yfir daginn með atriðum nemenda Hvolsskóla auk gesta. Heiðursgestur að þessu sinni er Þórður Helgason dósent við kennaradeild Háskóla Íslands. Þórður sem er öllum hnútum kunnugur á Njáluslóðum er jafnramt rithöfundur og ljóðskáld og hafa margar bækur hans skírskotun í Fljótshlíðina þar sem hann var í sveit sem drengur. Að þessu sinni munu nemendur 7. bekkjar lesa Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson. Með því slá þeir upphafstóninn í Stóru upplestrarkeppni 7. bekkjar sem lýkur með glæsilegri lokahátíð í mars. Gestir eru hjartanlega velkomnir og hlökkum við til að taka á móti þeim. Á heimasíðu Hvolsskóla www.hvolsskoli.is má sjá dagskrá dagsins í heild sinni.