Á 80 ára afmælishátíð Hvolsvallar fluttu 4 börn úr Hvolsskóla ljóð. Þetta voru þau Agnes Hlín Pétursdóttir, Guðni Steinarr Guðjónsson, Sigurður Anton Pétursson og Dagur Ágústsson. Krakkarnir hafa verið að æfa sig í upplestri og leiklist undir stjórn Margrétar Tryggvadóttur og stóðu sig með mikilli prýði.

Agnes Hlín og Guðni Steinarr fluttu ljóðin sem þau tóku þátt með í Stóru upplestrarkeppninni milli krakka í 7. bekk í Rangárvallasýslu, V-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum. Þá keppni sigraði Agnes Hlín en Guðni Steinarr varð í 3. sæti. Sigurður Anton og Dagur fluttu ljóðin Gamla Kaupfélagið eftir Pálma Eyjólfsson og Vígsluljóð Hvolsins eftir Pál Björgvinsson.

Margrét Tryggvadóttir á mikinn heiður skilið fyrir þá vinnu sem hún hefur innt af hendi við kennslu í framsögn og leiklist og börnin hafa greinilega notið góðs af.