Á dögunum voru Rangæingarnir Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímoni og Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu valin af Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ)  í úrvalshóp FRÍ  fyrir ungmenni á aldrinum 15-19 ára. Tvisvar á ári velur Frjálsíþróttasambandið ungmenni sem náð hafa ákveðnum og krefjandi lágmörkum í sínum greinum í úrvalshópinn.  Ungmennin taka þátt í æfingabúðum á vegum FRÍ þar sem góðir fyrirlesarar og færir þjálfarar leiðbeina hópnum. 
Markmið Frjálsíþróttasambands Íslands með starfsemi úrvalshóps FRÍ 15-19 ára er að skapa umhverfi þar sem íþróttir snúast um meira en bara keppni og árangur. Umhverfi þar sem unglingarnir fá ekki einungis tækifæri til að þróast sem íþróttamenn heldur einnig tækifæri til að eignast vini, skapa sér heilbrigðan lífstíl og læra að sigrast á sjálfum sér með því að setja sér raunhæf markmið og plön.