Bókaklúbburinn Skruddur hefur hist einu sinni í mánuði frá því í september 2013 á Héraðsbókasafninu á Hvolsvelli. Mismunandi þema hefur verið fyrir hvern fund og meðlimir klúbbsins segja frá hinum ýmsu bókum sem lesnar hafa verið.

Fyrir síðasta fund var ákveðið að lesa bók sem mynd hefur verið gerð eftir og lásu allir sömu bókina, Chocolat eftir Joanne Harris. Fundi bókaklúbbsins var svo breytt í bíókvöld þar sem hópurinn horfði saman á myndina, borðuðu popp og súkkulaði og skemmtu sér vel.

Bókaklúbburinn Skruddur er fyrir alla þá sem gaman hafa af lestri og umræðum um mismunandi bækur. Hittingar eru fyrsta miðvikudag í mánuði og næst verður fjallað um nýjar bækur úr jólabókaflóðinu.