Austur-Landeyingurinn Inga Kristín Guðlaugsdóttir, frá Voðmúlastöðum, hlaut nýsköpunarverðlaun Forseta Íslands árið 2018 ásamt Elínu Sigríði Harðardóttur. Þær Inga Kristín og Elín Sigríður eru nemendur í grunnnámi vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands og hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Lúpína í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð.


 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Elínu Sigríði og Ingu Kristínu verðlaunin.

Af síðu Rannís
Í verðlaunaverkefninu voru kannaðir eiginleikar og styrkleikar lúpínunnar sem hráefnis. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvort hægt væri að vinna efni úr lúpínu án allra íblöndunarefna, sem væri þá algjörlega niðurbrjótanlegt í náttúrunni. Efni sem væri nýtanlegt í einhverskonar áframhaldandi framleiðslu.

Megintilraunirnar í verkefninu voru að pressa plötur úr rótum og stönglum plöntunnar og gera samanburð á afurðunum, annars vegar á plöntuhlutum og hins vegar á mismunandi vaxtarskeiði hennar. Sýnishorn voru unnin með það að markmiði að gera styrkleikaprófanir svo hægt væri að kanna styrk efnisins og áætla hvort og þá hvar hægt væri að staðsetja það í flokki byggingarefna, miðað við þá vinnsluaðferð sem notuð var í rannsókninni. Gerð voru beygjubrotþolspróf og metin orkuþörf við framleiðslu á efninu. Að auki voru gerðar tilraunir með aðra plöntuhluta, s.s. blómin.

Náttúrutrefjar eru hráefni sem vonir eru bundnar við í þróun á umhverfisvænum efnum, hráefni sem gæti komið í stað plasts og gerviefna sem hafa verið notuð undanfarna áratugi og stofna náttúrunni í hættu. Alaskalúpína er belgjurt sem hefur mikinn lífmassa og finnst víða í náttúru Íslands. Hún er áhugaverð vegna eiginleika sinna til að framleiða nitur, þannig sér hún sjálfri sér fyrir næringu og er þar af leiðandi sjálfbær þegar hún hefur fest rætur. Plantan hefur nær eingöngu verið notuð sem uppgræðslujurt.