Á 281. fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra var lagður fram til síðari umræðu ársreikningur ársins 2020. Árið var krefjandi í rekstri allra sveitarfélaga á íslandi og mörg sveitarfélög voru rekin með halla árið 2020. Ljóst er að góður varnarsigur hefur verið unninn í rekstri Rangárþings eystra á árinu 2020. Þegar heimsfaraldurinn Covid 19 skall á lagði sveitarstjórn upp með að verja störf innan sveitarfélagsins, ráða námsmenn í átaksverkefni og fara í atvinnuskapandi framkvæmdir á árinu 2020 til að vega upp á móti áhrifum faraldursins á samfélagið. Að sama skapi var reynt eftir fremsta megni að draga úr öðrum útgjöldum til að mæta þeim samdrætti í tekjum sem blasti við sveitarsjóði. Ljóst er að þessar aðgerðir hafa skilað þeim árangri sem náðist á árinu en samantekin reikningsskil A- og B- hluta skiluðu rétt um 16 m.kr rekstrarafgangi.

Helstu niðurstöður ársreiknings

Í ársreikningi 2020 kemur fram að samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri uppá 151 m.kr. og er rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jákvæð um 157 m.kr. eða sem nemur um 4,5% af heildartekjum samstæðunnar.
Sem hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins nema skuldir í árslok 2020 57,1 % sem er 92,9% prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað.

Stærsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagins eru launakostnaður, sem nemur ríflega helmingi alls kostnaðar. Stærsti einstaki málaflokkurinn eru framlög til fræðslumála, rekstur leik- og grunnskóla en tekur sá mála flokkur til sín 59% af skatttekjum, en auk þess rennur 11% til íþrótta- og æskulýðsmála.

Fjárfestingar ársins 2020 námu 250 m.kr en þar má helst nefna uppbyggingu gatnakerfis og gatnagerð fyrir 129 m.kr., endurbyggingu klefa í íþróttamiðstöð fyrir 69 m.kr. og endurbætur í Hvoli fyrir 35 m.kr. Tekið var nýtt langtímalán að upphæð 200 m.kr.

Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár.

Framundan er mikil uppbygging í sveitarfélaginu, þar ber helst að nefna byggingu nýs leikskóla en á fyrstu mánuðum ársins tók sveitarstjórn ákvörðun um að flýta byggingu leikskóla. Um er að ræða stærstu einstöku framkvæmd sem sveitarfélagið hefur lagt í og því ljóst að sá fjárhagslegi grunnur sem byggður hefur verið upp á liðnum árum skiptir sköpum í því að sveitarfélagið geti ráðist í slíka stórframkvæmd.

 

Lesa má ársreikninginn í heild sinni hér.