Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti eftirfarandi ályktun vegna Landeyjahafnar á 174. sveitarstjórnarfundi, föstudaginn 26. apríl.

Ályktun sveitarstjórnar Rangárþings eystra vegna Landeyjahafnar
Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar því að í alvöru er farið að huga að smíði nýrrar ferju til siglinga milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.  Jafnframt bendir hún á að augljóst er að talsverðar endurbætur verða að fara fram á höfninni sjálfri svo að hún geti þjónað hlutverki sínu allan ársins hring.  Lítt fyrirsjáanlegur sandburður, straumaköst og aðrir erfiðleikar valda því að öryggi hafnarinnar, bæði hvað varðar öryggi farþega sem og áætlanir og ferðatíðni, er ekki viðunandi á öllum tímum, þrátt fyrir mikinn tilkostnað.

Greinargerð
Enginn velkist nú í vafa um gagnsemi Landeyjahafnar og er reynslan, það sem af er, afar jákvæði fyrir atvinnulífið og fyrir lífsgæði íbúanna beggja vegna. Notkunarmöguleikar hafnarinnar eru þó óviðunandi, enn sem komið er og fyrir vikið verður engin frekari þróun á samstarfi sveitarfélaganna, samnýtingu á þjónustu og á þróun atvinnulífsins á svæðinu. Ófyrirséðar breytingar á áætlun ferjunnar valda þjónustuaðilum á svæðinu einnig talsverðum búsifjum. 
Ný og minni ferja mun að líkindum bæta mjög úr varðandi þjónustu hafnarinnar, en mun um leið gera ennþá ríkari kröfur til þess að hún verði opin allan ársins hring.  Tilkostnaður við sanddælingu hefur farið langt fram úr áætlunum og eru líkur á að svo verði áfram að óbreyttu.  Miklir hagsmunir eru fólgnir í því að spara þá fjármuni og væri þeim betur varið í að vinna að varanlegum endurbótum á höfninni.    
Það er því brýnt hagsmunamál Rangæinga, ekki síður en Vestmannaeyinga að ferjusiglingar komist í gott lag hið fyrsta og að þau tækifæri sem höfnin býður upp á, verði nýtt.
Ályktunin samþykkt samhljóða.