Álfheiður Ólafsdóttir sýnir olíumálverk í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli.  Á sama tíma sýnir hún einnig í Kaffi Loka á Lokastíg í Reykjavík.  

Sýningarnar bera heitið Línan og eru sérstakar að því leyti að málverkin hafa tekið miklum breytingum frá fyrri sýningum Álfheiðar.
„Þegar ég fór að vinna fyrir sýningarnar þá varð línan fyrir valinu, sem einkenni sýninganna.  Unnið út frá línu og spunnið áfram eins og vefari spinnur þráð. Þá hafa málverkin þróast áfram, sjálfsprottin og sjálfstæð.“
Línan er upphaf og endir alls.  Hún getur verið bein, hlykkjótt, farið í hringi og spírala.  Lína er stærðfræðihugtak, eða strik á pappír.  Ættarlína.  Áður en hjartað fer að slá í móðurkviði er hjartsláttur okkar bein lína.  Þegar við endum lífið hér á jörðinni þá verður hjartalínan aftur bein.  Fólk er eins og lína frá hvirfli til ilja.
Álfheiður Ólafsdóttir lauk prófi í grafískri hönnun frá Myndlista og handíðaskólanum vorið 1990.
 Álfheiður er alin upp austur í Fljótshlíð.  Að vera alin upp í sveit er gott veganesti fyrir listamann.  Þar sem sterk ítök íslenskrar þjóðtrúar er ríkjandi.  „Ég get ekki komist hjá því að það séu einhverjir álfar og fleiri skemmtilegar verur í málverkunum mínum.  Mér finnst vænt um þegar þær birtast“
Línan var sýnd í febrúar í Listhúsi Ófeigs og Mokka-kaffi samtímis.  nú leggur hún leið sína austur á Hvolsvöll og er á sama tíma á Kaffi Loka.  Á leið sinni um suðurlandið velja málverkin sér nýja eigendur og önnur ný málverk fæðast í staðinn.  Eins og gangur lifsins er hjá okkur.  Á Hvolsvelli er náin samvinna milli Álfheiðar og móður hennar Maríu Jónsdóttur í nokkrum verkum þar sem María klippir út hesta sem eru límdir á málverk Álfheiðar.

Nánari upplýsingar um Álfheiði og sýninguna má sjá á heimasíðu Sögusetursins