27. fundur Heilsu, íþrótta- og æskulýðsnefndar var haldinn í Hvolnum 8. febrúar 2017 kl. 16:30. Mætt voru: Bjarki Oddsson, Lárus Viðar Stefánsson, Jónas Bergmann, Bóel Anna og Helga Guðrún Lárusdóttir.

1.Félagsmiðstöðin – gestur Þröstur Freyr Sigfússon.
Opnun félagsmiðstöðvarinnar gekk vel og fékk félagsmiðstöðin gjafir frá kvenfélögum og fyrirtækum. Búið að lista upp það sem vantar og mun Þröstur ganga í það að kaupa það. Auglýst var eftir starfsmanni og barst ein umsókn. Heimasíða félagsmiðstöðvarinnar er í vinnslu og á henni mun dagskrá birtast reglulega. Stefnt er að því að fara á Stíl og Samfés fyrir 8. - 10. bekk en einnig er miðstigs ball framundan.  Enn hefur ekki tekist að koma ungmennahúsi almennilega í  gang.  Sumarsmiðjurnar verða í sumar eins og áður fyrir krakkana á miðstigi. Hljóðmengun er slæm í húsinu en unnið að því að setja upp hillur og myndir og með því móti mætti minnka hávaða. Krakkarnir eru mjög þakklátir fyrir húsnæðið og reyna að ganga vel um.  Spurning að setja upp vegg í stóra rýmið til að reyna að draga úr hávaða.  
Rætt var um að hafa meira opið á föstudagskvöldum og eins ræddu menn um að kaupa áskrift af sjónvarpsstöðvum.

2.Deiliskipulag fyrir íþróttasvæði.
Heilsu, íþrótta- og æskulýðsnefnd ítrekar og hvetur sveitastjórn að fara huga að deiliskipulagi fyrir íþrótta- og sundlaugasvæðið.  Lagt er til að fara í hugmyndavinnu með íbúum og byrja á því sem fyrst. 

3.Íþróttamiðstöðin – Ólafur Örn Oddsson.
Ólafur Örn forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar fór yfir nokkur atriði sem tengjast íþróttamiðstöðinni. Aðsókn á síðasta ári var í kringum 34.000 manns í sundlaugina. Í janúar á þessu ári hefur orðið aukning um 250 manns í sund og 200 í líkamsrækt miðað við janúar á síðasta ári. 
Einnig var sagt frá því að ákveðið hefur verið að búa til stór auglýsingaskilti við þjóðveginn til að auglýsa sundlaug/líkamsræktina. 
Fleiri atriði voru rædd eins og pöntuð hefur verið sundklukka, að fara þarf að huga að nýju hlaupabretti, umræða hvort leyfa ætti auglýsingar við sundlaugina, hvort mála ætti myndir á austur vegg sundlaugagirðingarinnar og Guðlaugssundið bar á góma. 
Ólafur sagði líka frá því að hugmyndir eru upp um setja stóla, veggföst borð og upplýsingaskjá fyrir viðskiptavini íþróttamiðstöðvarinnar. 
60+ verkefnið gengur mjög vel og eru í kringum 60 manns sem mæta í líkamsrækt úr þeim hópi a.m.k. þrisvar í viku. 
Á þessu ári á íþróttahúsið 20 ára afmæli og er ætlunin að vera með veglega afmælisveislu á árinu. 
Ólafur sagði einnig frá því að í ljósi umræðu ber brjóst kvenna í sundlaugum verður ekki gerð athugasemd við berbrjósta konur í sundlauginni á Hvolsvelli en sundgestum ber skylda að klæðast viðeigandi sundfatnaði og skýla því allra heilasta.

4.20 ára afmæli íþróttahúss, 20 ára afmæli Dímonar, 20 ára afmæli KFR, 30 ára afmæli sundlaugar. 
Rætt var um að hafa öll afmælin saman og lagt til að Ólafur myndi kanna hvaða möguleikar væru í stöðinni.  

5.Samningurinn við Dímon.
HÍÆ nefnd gerir ekki athugasemd við samninginn milli sveitarfélagsins. 

6.Málaflokkurinn – Ólafur Örn
Tour de Rangárþing verður hjólkeppnin í ár. Hún verður í samstarfi við Rangárþing ytra og fer fram 29. júlí. Keppnin er fjallahjólakeppni og fer þannig fram að hjólað verður frá Hellu til Hvolsvallar alls 45 km leið. Á næsta ári verður hjólað sömu leið til baka. Samhliða þessari keppni verður unglinga og ungmennakeppni sem og leikir og þrautir fyrir börn. Verðlaunaafhending og sundlaugarpartý verður svo í lok keppninnar. Ákveðið var að breyta keppninni vegna vaxandi umferðar á þjóðvegi 1 og þar af leiðandi aukinnar slysahættu meðal keppandi. 
Auglýsa þarf eftir samstarfsaðilum til að halda 17. júní og mun Ólafur gera það eins fljótt og kostur er. HÍÆ nefnd mun svo velja úr umsækjendum.
Ratleikurinn verður á sýnum staða í vor og munu jafnvel nýjar leiðir koma inn á þessu ári.
Einnig var rætt um fyrirhugaðan Folf völl, Move week og sumarstörf í vinnuskólanum. 

7.Önnur mál.
Reyna þarf að virkja Ungmennaráð betur. Lagt var til að Ungmennaráð myndi fjalla um og leggja til hugmyndir vegna afmælis íþróttamiðstöðvarinnar, Move week og ungmennahús. Ólafur mun koma því til þeirra. 

Fundi slitið kl. 18:05