Fjölskyldan á bænum Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum opnaði gestastofu tileinkaða gosinu í Eyjafjallajökli þann 14. apríl 2011 en þá var liðið ár síðan að gosið hófst. Gestum er þar boðið upp á 20 min. heimildamynd um hvernig er að búa við rætur eldfjalls þegar það gýs og hversu mikil áhrif gosið í jöklinum hafði á líf íbúa. Í Gestastofunni er veggur tileinkaður sögu eldgosa á Íslandi frá tímum Víkinga og inn í nútímann og tilkomumiklar myndir prýða aðra veggi húsnæðisins. 

Á þessum rúmum 2 árum sem Eyjafjallajökuls gestastofan hefur verið opin þá hefur fjöldi fólks heimsótt Gestastofuna. Í ár hafa nú þegar 36 þúsund manns komið við og hefur verið jöfn og þétt aukning alla mánuði ársins. Metdagar hafa verið núna í júlí, 10. júlí sl. komu 720 manns og þann 17. júlí komu 677 en það var einmitt 17. júlí 100.000 gesturinn frá upphafi kom við. Það var hinn norski Emil Jøsendal sem var þess heiðurs aðnjótandi og afhenti Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, honum viðurkenningaskjal og smá bút úr Eyjafjallajökli. Emil var á ferð með 30 öðrum Norðmönnum og má sjá mynd af hópnum hér fyrir ofan.