Samráðsfundur Héraðsnefndar V-Skaftafellssýslu og Héraðsnefndar Rangæinga haldinn 19. mars 2004 á Hótel Selfossi. Fundurinn hófst klukkan 16:30.

Mættir: Valtýr Valtýsson, Tryggvi Ingólfsson, Jónas Jónsson, Árni Jón Elísson og Elín Einarsdóttir. Fundargerðina ritaði Elín Einarsdóttir.

Árni Jón setti fund og stjórnaði

1. Húseignir ríkisins í Skógum
Valtýr greindi frá því að Héraðsnefnd Rangæinga muni í kjölfar niðurstöðu Héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu óska eftir afstöðu sveitarstjórna í Rangárþingi um hugsanleg kaup á “héraðsskólahúsinu”.

2. Lóðir á jörðinni Ytri-Skógum, samningar, endurgjald
a) Árni Jón lagði fram yfirlit yfir lóðir í landi jarðarinnar Ytri-Skóga, leigutaka og leigugjald. Árni Jón lagði til að reynt yrði að samræma leigugjald og uppfæra samninga eftir því sem kostur er.
Rætt var um að koma innheimtu á leigugjaldi í eðlilegan farveg. Ákveðið að innheimt verði fyrir þá samninga sem ekki hafa verið í virkri innheimtu, fyrir árið 2003 og síðan framvegis. Guðmundi Einarssyni hjá Fannbergi falið að annast innheimtuna.

b) Rætt um bréf Margrétar Bárðardóttur þar sem hún óskar eftir fyrir hennar hönd og bróður síns Guðmundar Bárðarsonar, að þau fái leyfi til að endurnýja sumarhús sitt sem stendur í landi jarðarinnar Ytri-Skóga. Ákveðið að fela Ólafi Eggertssyni að ræða nánar við eigendur beggja sumarhúsanna (sem standa ofan við Þórhallshús) um þeirra fyrirætlanir.

c) Árna Jóni og Valtý falið að yfirfara lóðaleigusamninga og ræða við leigutaka þar sem þess þarf með.

d) Valtýr greindi frá því að forsvarsmenn Hótel Skóga ehf. hafa óskað eftir því munnlega við Héraðsnefnd Rangæinga að fá úthlutað lóðinni vestan við hótelið (“dýralæknisbústaðinn”). Skriflegt erindi mun berast innan tíðar.

3. Staða skipulagsmála í Skógum
Tryggvi greindi frá því að Stefán Örn Stefánsson arkitekt hafi komið á fund hjá Héraðsnefnd Rangæinga þar sem hann fór yfir skipulagsmál í Skógum. Stefnt er að því að aðalskipulag Rangárþings eystra fari í kynningu í vor og í framhaldi af því fyrri umræðu í sveitarstjórn á haustdögum og staðfestingu ráðherra vænst fyrir árslok 2004. Ákveðið að óska eftir því við Stefán Örn að hann komi á sameiginlegan fund héraðsnefndanna.

4. Hugsanleg sala jarðarinnar Ytri-Skóga
Árni Jón kynnti feril málsins eftir fund fulltrúa beggja héraðsnefnda með ábúendum í Ytri-Skógum þann 15. júlí 2003. Á þeim fundi spurðust ábúendur fyrir um hvort sala jarðarinnar kæmi til greina og voru málsaðilar sammála um að skoða það mál frá öllum hliðum. Héraðsnefndirnar hafa sameiginlega leitað lögfræðiálits um eignarhald á framleiðslurétti jarðarinnar, en beðið er niðurstöðu vinnu við gerð aðal- og deiliskipulags. Frekari umræðum frestað til næsta fundar.

5. Málefni Byggðasafnsins
Valtýr greindi frá því að ekki lægi fyrir rekstrarniðurstaða ársins 2003. Staða og horfur góðar fyrir þetta ár. Starfsannamál eru í endurskoðun.

6. Málefni Samgöngusafnsins
Fyrir liggja drög að samkomulagi héraðsnefndanna vegna bankaláns hjá KB-banka sem tekið var vorið 2003 til uppbyggingar Samgöngusafnsins.
Engar athugasemdir komu fram við drögin og formönnum falið að undirrita samninginn.

7. Málefni Héraðsskjalasafnsins
Framlag héraðsnefndanna fyrir árið 2003 er geymt í sjóði og fyrirhugað er að ráða skjalavörð í hlutastöðu á þessu ári.

8. Önnur mál
Ákveðið að fullskipaðar héraðsnefndir Rangæinga og Vestur-Skaftafellssýslu hittist á fundi í Skógum 16. apríl n.k. klukkan 13.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið klukkan 17:30.

Elín Einarsdóttir