Fundargerð Fræðslunefndar 20. ágúst 2015

Mættir eru Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Daníel Gunnarsson, Heiða Björg Scheving, Hildur Ágústsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Pálína Björk Jónsdóttir, Anna Kristín Helgadóttir, Berglind Hákonardóttir (fulltrúi foreldra leikskólabarna), Unnur Óskarsdóttir, Tómas Grétar Gunnarsson og Gyða Björgvinsdóttir sem ritaði fundargerð. Enginn fulltrúi kom frá foreldrum grunnskólabarna og ekki voru boðuð forföll.

Fundur settur kl. 16: 30

1)Fréttir frá leikskóla

Anna Kristín aðstoðarleikskólastjóri sagði frá stækkun leikskóla og stöðu varðandi fjölda barna á biðlista. Hús félagsmiðastöðvarinnar verður flutt og gert er ráð fyrir að nýja rýmið verði tilbúið um áramót. Átján börn eru á biðlista og þar af eru tvö þriggja ára sem bíða eftir vistun vegna reglna um innritun. Talsverðar umræður spunnust um húsnæðisskort og biðlista og bráðabirgðalausnir í húsnæðismálum. Fræðslunefnd hvetur til þess að hugað verði að nýju framtíðarhúsnæði fyrir leikskólann hið fyrsta og að gert verði ráð fyrir slíku í fjárhagsáætlun komandi sveitarfélagsins. Nýr deildarstjóri hefur störf nú í haust og svo vantar fimmta deildarstjórann og leikskólakennara í eina og hálfa stöðu þegar nýja húsið verður tekið í notkun.  Fagfólki hefur fækkað við leikskólann og erfiðlega hefur gengið að fá faglært fólk til starfa. Fræðslunefnd telur nauðsynlegt að sveitarstjórn grípi til aðgerða til að laða faglært starfsfólk til starfa, til dæmis með því að aðstoða fólk með húsnæði. Fræðslunefnd óskar eftir að sveitarstjóri komi á næsta fræðslunefndarfund og geri grein fyrir framtíðarsýn sveitarstjórnar í málefnum leikskóla. Einhverjir hafa nýtt sér styrki til náms og fræðslunefnd fagnar því framtaki sveitarstjórnar að styrkja nema í leikskólafræðum.

2)Frá Hvolsskóla

Birna skólastjóri  sagði frá því að skólaárið yrði 170 dagar og um er að ræða 3 annir. Nemendur skólaársins verða 230, 3 stjórnendur starfa við skólann.  Kennarar eru 27 talsins og þar af eru 13 umsjónarkennarar.  Verkefni á liðnu skólaári eru m.a. breytingar á vali, forvarnaráætlun og  símenntunaráætlun.

Ýmis verkefni eru framundan. Horft er til heilsueflandi leik- og grunnskóla og ART innleiðing heldur áfram. Ný sjálfsmatsskýrsla er að líta dagsins ljós og verður umbótavinna henni tengd framundan. Móttaka nemenda með annað móðurmál er í vinnslu ásamt jafnréttisstefnunni.  Birna bendir á viðburðadagatal skólans á heimasíðunni. Þar er hægt að sjá hvað er framundan.
Samellustarf á að hefjast 31. ágúst. Sambærilegt kerfi verður á skólaakstri og var á síðasta skólaári.


3)Þjóðarsáttmáli um læsi, Menntamálaráðuneytið er að fylgja eftir  markmiðum sínum í Hvítbók um læsi. Í Rangárþingi verður skrifað undir þjóðarsáttmálann um læsi þann 14. september. Sveitarstjóri mun skrifa undir sáttmálann og er Birna Sigurðardóttir tilnefndur tengiliður.

4)Styrkumsókn Námsefnisbankans, sagt var  frá heimsókn Leifs og Más frá Námsefnisbankanum  í dag. En um er að ræða gagnabanka kennslugagna, þar sem kennarar geta nálgast og sett inn kennsluefni. Ljóst er að tölvukostur skólans þarf að vera í góðum málum eigi þetta að ganga upp. Fræðslunefnd þykir verkefnið spennandi og felur skólastjóranum að vinna úr þessu. Stjórnendur innan skólaþjónustusvæðisins gætu e.t.v. haft samráð og sett sig svo í samband við sveitastjórn.5)Önnur mál

Námskeið fyrir skólanefndir á Suðurlandi verður 5. september í húsnæði Fræðslunetsins við Tryggvagötu á Selfossi. Námskeiðið hefst kl.9:30 og því lýkur kl. 17. 

Umræður um mötuneytismál. 

Borist hefur bréf um eftirfylgni á innleiðingu laga þar sem mælst er til að skólinn ráði náms- og starfsráðgjafa. Málið er í skoðun.

Unnið er að mati á umbótaáætlun leikskólans. Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 19:00