245. fundur sveitarstjórnar Rangárþings eystra haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins, fimmtudaginn 13. desember kl. 16:00.

Mætt:   Anton Kári Halldórsson, Elín Fríða Sigurðardóttir, Guðmundur Viðarsson, Rafn Bergsson, Guri Hilstad Ólason, varamaður Lilju Einarsdóttur, Christiane L. Bahner, og Benedikt Benediktsson, varaoddviti, sem setti fundinn og stjórnaði honum.

Fundargerð ritaði Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi.

Varaoddviti bauð fundarmenn velkomna um leið og hann leitaði eftir athugasemdum við fundarboðið.

Gengið var til formlegrar dagskrár:

Mál til afgreiðslu:

1.         1811004 - Fjárhagsáætlun Rangárþings eystra 2019-2022

Áætlaðar heildartekjur Rangárþings eystra (aðalsjóðs, A- og B hluta) nema alls 1.908 m. kr. Heildarútgjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.780 m.kr. og þar af reiknaðar afskriftir 100 m.kr.  Veltufé frá rekstri 218,4 m.kr.  Niðurstaða án fjármagnsliða er áætluð 128.1 m. kr.  Rekstrarniðurtaða jákvæð um kr. 84,3  m.kr.

Í eignfærða fjárfestingu verður varið                       165,5 mkr.
Afborgun lána                                                            60,7 mkr.
Tekin ný langtímalán                                                      0 mkr.
Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok   1.025,4 mkr.
Eigið fé er áætlað í árslok                                     2.067,1 mkr.

 

Fjárhagsáætlun Rangárþings eystra 2019 – 2022 samþykkt með 6 greiddum atkvæðum AKH, EFS, BB, GHÓ, RB og GV. 1 situr hjá CLB.

 

Bókun fulltrúa L-lista

Undanfarnar vikur hefur undirbúningur fjárhagsáætlunar staðið yfir og hafa allir sveitarstjórnarfulltrúar fengið tækifæri til að taka virkan þátt í því. Vinnan hefur gengið vel, upplýsingaflæði gott og ákvarðanataka sameiginleg og þakka ég meirihluta fyrir ánægjulegt samstarf. Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er afrakstur þessarar vinnu en í henni kemur glöggt fram að farið var í mjög stórar fjárfestingar á síðasta kjörtímabili. Sem betur fer þá getum við búist við því að geta haldið rekstrinum gangandi án þess að grípa þurfi til róttækra breytinga, allavega á komandi ári 2019. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að reksturinn verði í járnum um ófyrirsjáanlegan tíma og að fresta þurfi nauðsynlegum fjárfestingum, t.d. nýbyggingu leikskólans vegna þessa. Jafnframt hefur sveitarstjórnin afar lítið svigrúm til að nota skatta og gjöld sem stýringartól og geta því átt erfitt með að koma sínum pólitísku áherslumálum í framkvæmd.

 

2.         1812032 - Gjaldskrár 2019

Reglur og gjaldskrá fyrir Skólaskjól – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá og reglur fyrir mötuneyti Hvolsskóla 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir Íþróttamiðstöð – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir kattahald – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir hundahald á Hvolsvelli – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá skipulags- og byggingarfulltrúar 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir fráveitu 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá vatnsveitu Rangárþings eystra 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir Skógaveitu 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá sorphirðu 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá fyrir fjallaskála í Rangárþingi eystra 2019 – Samþykkt samhljóða

Gjaldskrá félagsheimila 2019 – Samþykkt samhljóða

Reglur um afslátt af fasteignaskatti – Samþykkt samhljóða

Álagningareglur 2019 – Samþykkt samhljóða

           

3.         1711021 - Fjárhagsáætlun Rangárþings eystra 2018-2021.

            Viðauki 2 við Fjárhagsáætlun 2018

 

Viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2018-2021

Viðaukarnir eru upp á 16.935.200. Á móti er hagnaður lækkaður og uppgjör við Brú útfært, skammtímaskuld greidd upp 81,0 millj. kr. og fyrirframgr. kostnaður færður 157,9 millj. kr. Útgjaldauka mætt með hækkun langtímalána um 200 millj. kr. og handbært fé hækkað 47,9 millj. kr. í ársbyrjun 2018 miðað við rauntölur ársins 2017.

 

Viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2018 – 2021 er samþykktur samhljóða.

                       

4.         1811055 - Kirkjuhvoll; Fjárhagsáætlun 2019

Fjárhagsáætlun Kirkjuhvols 2019 samþykkt samhljóða.

                       

5.         1811042 - Fjárbeiðni Stígamóta fyrir árið 2019

Sveitarstjórn hafnar erindinu með 6 greiddum atkvæðum AKH, EFS, BB, GHÓ, RB og GV. 1 situr hjá CLB.

           

6.         1811043 - Heimavöllur Hestsins

Erindinu vísað til skipulagsnefndar til úrvinnslu.    

           

7.         1811041 - Fyrirspurn varðandi lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu

Nú þegar hefur lagningu og tengingu ljósleiðara á umræddu svæði verið lokið. Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

                       

8.         1802019 - Útboð; Uppbygging og rekstur ljósleiðarakerfis

Lagður fram til samþykktar samningur Rangárþings eystra og Mílu varðandi uppbyggingu og reksturs ljósleiðarakerfis í Rangárþingi eystra. Samningurinn samþykktur með 6 greiddum atkvæðum AKH, EFS, BB, GHÓ, RB og GV. 1 situr hjá CLB.

 

Bókun fulltrúa L-lista

Ég fagna því að öðrum áfanga ljósleiðarans sé lokið, hins vegar er ég og hef verið á móti því að kerfið verði selt einkaaðila með þeim skilmálum sem hafi verið samið um. Stærsti hluti kerfisins hefur verið kostaður af sveitarfélaginu og íbúum þess auk styrks úr Fjarskiptasjóði. Kaupandi fær nú að eignast kerfið á ca. þriðjungi af því verði sem uppsetning þess hafði kostað og er það að mínu mati ófyrirsvaranlegt gagnvart skattgreiðendum og þeim íbúum sem höfðu þurft að greiða fyrir sína tengingu.

 

Bókun fulltrúa B- og D- lista

Rekstur ljósleiðarakerfis er flókið viðfangsefni. Að mati meirihluta eru margir aðilar betur til þess fallnir að reka slíkt kerfi heldur en sveitarfélag. Reksturinn til komandi ára gæti því orðið talsvert íþyngjandi fyrir sveitarfélagið. Eins er alls óvíst að notkunargjöld komi til með að standa undir slíkum rekstri. Einnig er mjög hröð þróun í tæknigeiranum t.d. varðandi þráðlausar nettengingar sem verða sífellt betri og hagkvæmari. Þó svo að ljósleiðari sé ótvírætt besta mögulega tengingin sem völ er á, er engin vissa fyrir því að svo verði um ókomin ár. Að mati meirihluta er um stórt byggðarmál að ræða sem varð að veruleika og teljum við málinu vel borgið í höndum fagaðila.  

                       

9.         1812010 - Landgræðsla ríkisins; Beiðni um styrk vegna samstarfsverkefnisins Bændur græða landið 2018

Elín Fríða Sigurðardóttir víkur af fundi.

Sveitarstjórn samþykkir veitingu styrksins kr. 100.000

 

Elín Fríða kemur aftur inn á fund.               

10.       1812014 - Ég get; Bréf frá Þjóðleikhússtjóra

Erindinu vísað til menningarnefndar til umfjöllunar. Sveitarstjórn fagnar erindi Þjóðleikhússins.

                       

11.       1812026 - Stuðningssíða Tryggva Ingólfssonar; Áskorun til sveitarstjórnar

Sveitarstjórn bendir á að sú yfirlýsing sem gefin var út 17. maí 2018 er enn í fullu gildi. Á þeim tíma var lögð fram aðgerðaráætlun fyrir m.a. Kirkjuhvol til að undirbúa heimkomu umrædds einstaklings. Kirkjuhvoll hefur ötullega unnið skv. þeirri áætlun, og nú síðast undir handleiðslu sérfræðinga Auðnast. Því miður er sú vinna ekki enn komin á það stig að útséð sé með það hvenær Kirkjuhvoll verður í stakk búinn til að taka á móti einstaklingnum og tryggja öryggi hans sem heimilismanns. 

Ekki er fallist á þau sjónarmið sem koma í fram komnum erindum að sveitarstjórn Rangárþings eystra hafi á nokkurn hátt brugðist lagaskyldum sínum í máli þessu, enda hefur allt verið gert sem hægt er til að tryggja áframhaldandi öryggi og þjónustu við einstaklinginn. 

Sveitarstjórn harmar engu að síður þá stöðu sem málefni einstaklingsins hefur ratað í. Með málefni einstaklingsins fer Velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands. Nú er unnið að því af hálfu Sjúkratrygginga Íslands að viðunandi lausn finnist sem fælist í að gerður yrði samningur við annað heimili. Slíkur samningur yrði lögum samkvæmt kostaður af ríkissjóði Íslands. Sveitarstjóri hefur ásamt lögmanni sveitarfélagsins fundað með þeim aðilum undanfarið og sveitarfélagið lagt sig fram um að koma að lausn málsins eins og kostur er skv. lögum. Beðið er niðurstöðu málsins frá þeim aðilum.

Að lokum vill sveitarstjórn koma því á framfæri að mjög öflug þjónusta um málefni fatlaðra er rekin af sveitarfélaginu í gegnum Félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar geta allir sem rétt eiga á sótt um npa samning sem er þá settur í ferli hjá þjónustusvæði Suðurlands í málaflokki fatlaðs fólks.

                       

12.       1812028 - Steindór Sigursteinsson; Áskorun á sveitarstjórn varðandi mál Tryggva Ingólfssonar

Sveitarstjórn vísar í bókun undir lið 11.

                       

13.       1812027 - Greiðslur vegna skólaaksturs

Sveitarstjóri og skólastjóri hafa fundað með fulltrúum skólabílstjóra. Sveitarstjórn óskar eftir fundi með öllum hlutaðeigandi aðilum vegna málsins áður en ákvörðun verður tekin. Sveitarstjóra falið að boða til fundarins.

                       

14.       1812022 - Átakshópur um aukið framboð á íbúðum; beiðni um upplýsingar

Skipulags- og byggingarfulltrúa hefur nú þegar verið falið úrlausn erindisins.

                       

15.       1812024 - Héraðssambandið Skarphéðinn; Beiðni um fjárstuðning fyrir 2019

Sveitarstjórn samþykkir að styrkja HSK um 100 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins.                    

16.       1812016 - Umsögn; Efri-Úlfsstaðir gistileyfi

Sveitarstjóra falið að veita umsögn þegar umsagnaraðilar á vegum sveitarfélagsins hafa veitt sína umsögn.                  

 

17.       1812017 - Umsögn; Bergþórshvoll 2 gistileyfi

Sveitarstjóra falið að veita umsögn þegar umsagnaraðilar á vegum sveitarfélagsins hafa veitt sína umsögn.                  

 

18.       1812015 - Umsögn; Laufás gistileyfi

Sveitarstjóra falið að veita umsögn þegar umsagnaraðilar á vegum sveitarfélagsins hafa veitt sína umsögn.                  

 

19.       1812033 Tillaga L-lista varðandi markaðsátak fyrir sveitarfélagið.

Lagt er til við sveitarstjórn að upplýsingafulltrúa sveitarfélagsins verði falið að fara í markaðsátak til að bæta ímynd sveitarfélagsins.

 

Greinargerð:

Í nútíma samfélagi þar sem fólksflutningar eru mun tíðari en áður skiptir ímynd sveitarfélags gríðarlega miklu máli. Sveitarfélögin reka öll sömu stofnanir og eru því í beinu samkeppni um faglært starfsfólk í þær stöður sem þarf að manna þar. Rangárþing eystra hefur að undanförnu sést mjög lítið í fréttamiðlum landsins og mætti því gera betur í þeim efnum og efla stöðu sveitarfélagsins okkar með jákvæðum og athyglisverðum fréttaflutningi til að vera áfram eftirsóttur búsetukostur.

 

Sveitarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til Markaðs- og atvinnumálanefndar.

 

20.  1811026 - Skipulagsnefnd; 64. fundur

1810054          Lækjarbakki – Umsókn um stofnun lögbýlis

Tómas Ísleifsson óskar eftir stofnun lögbýlis á Lækjarbakka L172511. Einnig óskar Tómas eftir því að hið nýja lögbýli beri nafnið Sopi.

Skipulagsnefnd gerir engar athugasemdir við heitið á lóðinni. Nefndin vísar umsögn um stofnun lögbýlis til sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn samþykkir nýtt nafn á lóðina. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við stofnun lögbýlis á lóðinni.

 

1810058          Öldubakki 11 – Umsókn um stækkun á bílskúr

Magnús Kristjánsson óskar eftir því að fá að stækka bílskúr við Öldubakka 11 skv. meðfylgjandi loftmynd.

Skipulagsnefnd samþykkir að umsóknin verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem að ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1811028          Norðurgarður 3 – Breyting/stækkun á húsi

Sigurður Ingi Ingimarsson fh. Hlíðarvegur 5-11 ehf óskar eftir því að breyta/stækka  Norðurgarð 3 skv. meðfylgjandi uppdráttum.

Skipulagsnefnd samþykkir að umsóknin verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem að ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1811038          Vestri Garðsauki – Umsókn um skráningu nýrrar landeignar

Haraldur Þórarinsson og Ólafur Þór Þórarinsson óska eftir skráningu á lóð út úr Vestri Garðsauka L164204 skv. fyrirliggjandi niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna um skiptin á jörðinni. Að auki er óskað eftir því að hin ný stofnaða lóð fái heitið Vestri Garðsauki 2.

Skipulagsnefnd gerir engar athugasemdir við landskiptin og heitið á lóðinni.

Christiane L. Bahner víkur við afgreiðslu málsins

Sveitarstjórn samþykkir landskiptin og heitið á lóðinni.

 

Christiane L. Bahner kemur aftur inn á fund.

 

1811046          Ytri-Skógar – Umsókn um framlengingu á stöðuleyfi

Stefanía Björgvinsdóttir óskar eftir því að framlengja stöðuleyfi fyrir veitingavagn að Vinjum, Ytri Skógum.

Skipulagsnefnd samþykkir að framlengja stöðuleyfið til eins árs.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1811048          Ystabælistorfa lóð 2 – Umsókn um nafnabreytingu

Arndís I. Sverrisdóttir óskar eftir nafnabreytingu á Ystabælistorfu lóð 2, L209018. Eftir breytingu mun eignin bera nafnið Sólbakki.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við nafnið á lóðinni.

Sveitarstjórn samþykkir nýtt nafn á lóðina.

 

1811049          Gunnarsgerði 4 – Fjölgun íbúða

Eðalbyggingar ehf óskar eftir því að fjölga leyfðu íbúðamagni á lóðinni Gunnarsgerði 4 úr 3 íbúðum í 4-5 íbúðir.

Nú þegar er búið að auka byggingarmagn í Gunnarsgerði úr 23 íbúðum í 29. Skipulagsnefnd hafnar því að fjölga íbúðum í Gunnarsgerði 4 úr 3 í 4-5. Verið er að vinna að deiliskipulagi fyrir áframhaldandi íbúðabyggð, en þar verður gert ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum m.a. raðhúsum.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1412003          Drangshlíðardalur – Deiliskipulag

Guðni Úlfar Ingólfsson og Magðalena K. Jónsdóttir hafa óskað eftir heimild til deiliskipulagsgerðar fyrir Drangshlíðardal L163652. Um er að ræða 3,6 ha af jörðinni og fellur íbúðarhúsalóðin Drangshlíðardalur 2 L178810 einnig undir skipulagið ásamt tveimur frístundahúsalóðum. Í skipulaginu eru skilgreindar lóðir, byggingarreitir, heimarafstöð með inntaksstíflu og vatnspípu ásamt nýjum vegslóða.

Engar athugasemdir bárust á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að syðsti hluti nýs aðkomuvegar muni liggja nærri rétt (ÁR-003b:004). Skv. 22. gr. laga um menningarminjar skal friðhelgað svæði umhverfis fornleifar vera 15m nema annað sé tekið fram. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að hluti skipulagssvæðisins nær til friðlýsts svæðis sem nefnist Skógafoss Jaðarsvæði og er um 0,53 km2 að stærð. Skógafoss er friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu í Stjórnartíðindum B-deild, nr. 477/1987. Í auglýsingunni kemur fram að á jaðarsvæðinu gildi ekki reglur um náttúruvættið en samt sem áður er öll mannvirkjagerði þar háð leyfi Umhverfisstofnunar. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna með þeim fyrirvara að tekið sé tillit til fyrrgreindra athugasemda og gert grein fyrir þeim í deiliskipulagstillögu. Skipulagsnefnd samþykkir að tillagan verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123-2010.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

1811052          Sögusetrið – Ósk um skilti/styttu við Suðurlandsveg

Úlfar Þór Gunnarsson óskar eftir því að setja upp skilti/styttu við Suðurlandsveg (á móts við Vínbúðina). Skiltið mun vera eftirmynd Þórshamars og vera um 4,5m á hæð.

Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins. Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að vinna að reglum varðandi uppsetningu skilta innan sveitarfélagsins og leggja fyrir nefndina.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar. 

 

1811053          A-Landeyjar – Umsókn um framkvæmdarleyfi v/færslu vegar

Vegagerðin óskar eftir framkvæmdarleyfi vegna færslu á vegi nr 252 í A-Landeyjum á milli Sléttubóls og Efri-Úlfsstaða. Vegkaflinn er um 1000m langur og verður byggður upp úr landinum að meðaltali um 1 metra. Efni verður tekið úr námu E-213 (Efri Úlfsstaðir, malarnáma). Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. janúar 2019.

Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdarleyfis með fyrirvara um samþykki landeigenda.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1811054          Torfastaðir 5 lóð – Umsókn um skráningu nýrrar landeignar

Jónas Friðbertsson og Óskar Páll Björgvinsson óska eftir því að skipta lóðinni Torfastaðir 5 lóð í tvo jafna hluta. Óskað er eftir því að hin nýja lóð fái heitið Markargróf-Efri.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við landskiptin og heitið á nýju lóðinni.

Sveitarstjórn samþykkir landskiptin og heitið á nýju lóðinni.

 

1811061          Gularás – Færsla á mhl 140101 yfir á Gularáshjáleigu

Gylfi Freyr Albertsson og Margrét S Sveinbjörnsdóttir eigendur Gularás L163857 annars vegar og Ólafur Árni Óskarsson eigandi Gularáshjáleigu L163858 hins vegar, óska eftir því að skráningu mhl 140101 (sem er hlaða) verði breytt þannig að hann tilheyri Gularáshjáleigu í staðinn fyrir Gularási.

Skipulagsnefnd samþykkir breytta skráningu á mhl 140101.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1812001          Farfuglaheimilið á Skógum – Stækkun á byggingu

Eyja þóra Einarsdóttir fh eigenda Farfuglaheimilisins á Skógum óskar eftir því að stækka núverandi húsnæði Farfuglaheimilisins (sem er gamli Grunnskólinn á Skógum) skv meðfylgjandi drögum.

Skipulagsnefnd bendir á að skv. samþykktu deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga þá er einungis heimilt að reisa byggingu á einni hæð á þeim reit sem um ræðir. Skv deiliskipulaginu var lóðin stækkuð úr 3750 í 4252 m2 og hámarksstærð viðbyggingar ákveðin 800m2. Kvaðir eru um það að þakform viðbyggingar verði að vera eins og á núverandi húsnæði. Skipulagsnefnd hafnar erindinu á fyrrgreindum forsendum.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1812020          Seljalandsfoss – Endurnýjun á stöðuleyfi

Heimir Hálfdanarson, Atli Már Bjarnason og Elísabet Þorvaldsdóttir f.h. Seljaveitinga ehf. kt. 650213-1730, sækja um framlengingu á stöðuleyfi fyrir greiðasölu við Seljalandsfoss.

Skipulagsnefnd samþykkir framlengingu stöðuleyfis til eins árs.

Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar.

 

1812005          Byggingarmál – 23. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa

Fundargerð 23. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa lögð fram til kynningar.

Lagt fram til kynningar.

 

1809050          Hellishólar – Deiliskipulagsbreyting

Deiliskipulagsbreytingin tekur til svæðis innan jarðarinnar Hellishólar þar sem að núverandi frístundahúsalóðum er breytt í íbúðarhúsalóðir. Einungis er um breytingu á landnotkun að ræða og halda því aðrir skilmálar gildandi deiliskipulags. 

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi verði auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkir að tillaga að deiliskipulagi verði auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

1806054          Hellishólar – Aðalskipulagsbreyting

Rangárþing eystra leggur fram tillögu að aðalskipulagsbreytingu. Tillagan tekur til breytingar á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024. Fyrirhugað er að breyta landnotkun á 6,6 ha í landi Hellishóla í Fljótshlíð úr frístundabyggð (F) í íbúðabyggð (ÍB). Samkvæmt drögum að deiliskipulagi eru á svæðinu gert ráð fyrir 13 lóðum af mismunandi stærðum, allt frá 3.500 í rúmlega 6.000m2, fyrir einlyft einbýlishús.

Lýsing aðalskipulagsbreytingar hefur nú þegar verið auglýst og umsagnarfrestur liðinn. Umsagnir bárust frá lögboðnum umsagnaraðilum og hafa verið gerðar breytingar m.t.t þeirra. Tillagan hefur verið kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með opnu húsi hjá skipulagsfulltrúa. Skipulagsnefnd leggur til að sveitarstjórn samþykki tillöguna til auglýsingar og eftir yfirferð Skipulagsstofnunar verði hún auglýst skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna til auglýsingar og eftir yfirferð Skipulagsstofnunar verði hún auglýst skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

 

Fundargerð 64. fundar skipulagsnefndar staðfest í heild sinni.

 

Fundargerðir:

21.       1811004 - 6. fundur Fagráðs Sögusetursins. Staðfest.                      

22.       1811027 - 24. fundur menningarnefndar Rangárþings eystra. Staðfest.

Liður 1 Nínulundur

Menningarnefnd leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið taki að sér Nínulund til umsjónar. Nínulundur er mikilvægur partur af sögu og menningu sveitarfélagsins en er nú í niðurníðslu. Menningarnefnd leggur til að fenginn sé fagaðili til að meta og kostnaðargera þá vinnu sem fram þarf að fara til að gera Nínulund þannig að sómi sé að. Helstu verkefni væru að endurhanna gróðurvist, endurnýja skilti og girðingu og útbúa góðan göngustíg frá Hlíðarendakirkju. Eftir að endurbótum lýkur er aðeins um að ræða reglulegt viðhald og umsjón og þar gæti vinnuskóli sveitarfélagsins nýst. Framkvæmdir verða að hefjast vorið 2019.

Sveitarstjórn tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að vinna að framkvæmd málsins.

Liður 2 Afsteypa af höggmynd Nínu Sæmundsson

Bókun menningarnefndar: (Friðrik Erlingsson situr hjá við bókunina)

Menningarnefnd lýsir yfir ánægju sinni með framvindu verkefnisins og hvetur sveitarstjórn til að taka afstöðu til þess hvort hún sé fylgjandi því að vinna við þetta verkefni haldi áfram.

Friðriki Erlingssyni og menningarnefnd fá þakkir fyrir sína vinnu við verkefnið. Sveitarstjórn er einhuga í því að unnið sé áfram að verkefninu.

Liður 3 Reglur um úthlutun styrkja til menningarmála

Nefndin vann að gerð reglna um úthlutun styrkja til menningarmála. Menningarnefnd leggur drög að reglunum fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

Reglurnar samþykktar samhljóða. 

Sveitarstjórn hrósar menningarnefnd fyrir góða virkni og vel unnin störf.

23.       1811065 - 44. fundur stjórnar Kötlu jarðvangs. Staðfest.                     

24.       1812011 - Stjórnarfundur Héraðsbókasafns Rangæinga; 29.11.2018. Staðfest.

25.       1811057 - 2. fundur stjórnar Skógasafns. 12.11.2018. Staðfest.                      

26.       1812023 - 2. fundur Héraðsnefndar Rangæinga kjörtímabilið 2018-2022. Staðfest.                    

27.       1812025 - 61. fundur félagsmálanefndar Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu; 6.12.2018. Staðfest.                      

28.       1811064 - 35. fundur stjórnar Félags- og skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu; 27.11.2018. Staðfest.                     

29.       1811062 - Aðalfundur Sorpstöðvar Suðurlands bs. 18.10.2018. Staðfest.                      

30.       1811044 - 271. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands. 17.10.2018. Staðfest.                     

31.       1811045 - 272. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands. 01.11.2018. Staðfest.                    

32.       1811056 - 273. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands. Staðfest.                     

33.       1811058 - 539. fundur stjórnar SASS. Staðfest.                    

34.       1811063 - Aðalfundur SASS; 18. - 19.10.2018. Staðfest.                      

35.       1812029 - 192. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands. Staðfest.                     

36.       1812030 - Aðalfundur Heilbrigðiseftirlists Suðurlands; 19.10.2018. Staðfest.

 

Mál til kynningar

37.       1811066 - Hrafnshóll ehf; kynning á mögulegu samstarfi varðandi uppbyggingu húsnæðis                  

38.       1812013 - Möguleg sameining héraðsskjalasafna á Suðurlandi; Bréf til SASS.

39.       1812012 - Umboð til úttekta af reikningum lögaðila                      

40.       1812019 - Umferðaröryggi okkar mál

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:24