Mættir:  Egill Sigurðsson, Gunnsteinn R. Ómarsson, sem ritar fundargerð, og Ágúst Ingi Ólafsson.   Einnig sat fundinn Böðvar Bjarnason, slökkviliðsstjóri. 

Ágúst Ingi Ólafsson setti fund.

Dagskrá:

 1. Yfirlit um rekstur Brunavarna það sem af er árinu 2011.

  Borist hefur greiðsla fyrir hreinsunarstarf vegna Grímsvatnagoss,  rúmar 2,6 mkr. 

  Vörukaup ársins stefna lítið eitt fram úr áætlun, vegna kaupa á Tetra stöðvum, en heildarniðurstaða rekstursins stefnir í að vera skv. áætlun.  Fyrirvari er þó á því að ekki er búið að ganga frá uppgjöri vegna þátttöku starfsmanna í námskeiðum.

  Lausafjárstaðan í dag er inneign að fjárhæð kr. 12.679 þús.

 2. Fjárhagsáætlun 2012.

  Í drögum að fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að allur kostnaður, utan afskrifta, verði innheimtur af aðildarsveitarfélögunum.

  Gert er ráð fyrir 5% launahækkunum en annar rekstur í takti við útgjöld síðustu ára.

  Áætluð niðurstaða er rekstrarhalli að fjárhæð kr. 1.730 þús. eða því sem nemur afskriftum ársins.

  Ekki er gert ráð fyrir verulegum fjárfestingum á árinu.  Ef til óvæntra fjárfestinga kemur á árinu er gert ráð fyrir að þeim verði mætt með eigin fé.

  Skoða þarf mjög vandlega hvort mögulegt er að greiða upp eða inn á langtímalán hjá EBÍ og eins hvort eiginfjárstaðan gefi svigrúm til slíks.

  Rætt um þjónustu brunavarna við virkjanir Landsvirkjunar (LV) í Þjórsá innan Rangárvallasýslu.  Brunavarnir Árnessýslu (BÁ) hafa óskað eftir viðræðum um nýjan þjónustusamning vegna þessa verkefnis en samningur BÁ við LV rann út fyrr á þessu ári.  Þar sem vermæti virkjana hefur ekki verið tekið inn í kostnaðarskiptingu Brunavarna Rangárvallasýslu er talið eðlilegt að Ásahreppur og Rangárþing ytra gangi til viðræðna við LV vegna þessa verkefnis.

  Fjárhagsáætlun 2012 er borin upp til samþykkis og er hún samþykkt samhljóða.

 3. Starfsmannamál.

  Slökkviliðsmenn eru þessa dagana á námskeiðum í Brunamálaskólanum hjá Mannvirkjastofnun.  Margir hófu námið og eru þeir staddir á mismunandi stigum þess.  Ólíklegt er að allir þeir sem námið hófu munu klára það en verulegur fjöldi mun þó ljúka náminu sem er styrkur fyrir slökkviliðið.

  Eftir umræður um starfsmannamál síðustu mánaða og starfsmannafund sem haldinn var í haust er stefnt að því að halda árlega sameiginlegan starfsmannafund.

  Varðandi málefni varðastjóra á Hellu og uppsagnar hans, sem verður að veruleika um áramótin, mun formaður stjórnar ræða við Guðna G. Kristinsson fyrir næsta stjórnarfund.  Sá fundur er fyrirhugaður um miðjan desember nk.

 4. Önnur mál.

  Mikilvægt er að fyrirkomulag eldvarnaeftirlits verði skilgreint með varanlegum hætti á samstarfssvæði Brunavarna eins fljótt og kostur er.  Eldvarnaeftirlit er lögbundið verkefni brunavarna og eðlilegt að horft sé til þess að það sé á hendi slökkviliðsstjóra.

  Skoða verður vandlega framtíðarfyrirkomulag Brunavarna í Rangárvallasýslu, s.s. á að horfa til þess að stækka samstarfssvæðið.  Huga þarf að húsnæðismálum Brunavarna og þá sérstaklega húsnæðismál á Hellu.  Staðsetning húsnæðis á Hellu er óhentugt og stærð þess einnig.

  Stjórn Brunavarna óskar eftir fundi með oddvitum og sveitarstjórum samstarfssveitarfélaganna þar sem fjallað verður um framtíðarsýn reksturs brunavarna í Rangárvallasýslu.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 12:10

Ágúst Ingi Ólafsson  

Gunnsteinn R. Ómarsson

Egill Sigurðsson 

Böðvar Bjarnason