Fundargerð 25. fundar fræðslunefndar 
Haldinn mánudag 9. mars 2015 kl. 16: 30 í Leikskólanum Örk

Mætt voru Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Árný Jóna Sigurðardóttir, Benedikt Benediktsson (varamaður Daníels Gunnarssonar), Berglind Hákonardóttir, Birna Sigurðardóttir, Heiða Björg Scheving, Hildur Ágústsdóttir, María Rósa Einarsdóttir, Pálína Björk Jónsdóttir, Unnur Óskarsdóttir og Tómas Grétar Gunnarsson sem ritaði fundargerð. 


Arnheiður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 16:30

Dagskrá:

1. Frá sjálfsmatshópi Hvolsskóla
Svava Björk Helgadóttir sagði frá sjálfsmati starfsmanna og dró saman helstu breytingar frá síðustu könnun. Breytingar í starfsmannakönnun voru almennt litlar milli ára og jákvæðar breytingar voru fleiri en neikvæðar. Jákvæðar breytingar voru m.a. um stjórnun skólans og upplýsingaflæði, eftirfylgni agamála og styttingu skólaársins. Neikvæðar breytingar vörðuðu m.a. mötuneytið og vinnufrið í kennslustundum. Í foreldrakönnun voru einnig litlar breytingar milli kannana. Þekking á aðgerðaráætlun skólans og virðing gagnvart skólanum hafa m.a. aukist milli kannana. Neikvæðar breytingar vörðuðu m.a. mötuneyti og líðan barna í skóla. Í nemandakönnun voru sömuleiðis litlar breytingar milli kannana. Ánægja með mötuneytið jókst heldur hjá þessum hóp. 

2. Frá Hvolsskóla 
Birna Sigurðardóttir sagði frá starfinu í Hvolsskóla. Félagslíf nemenda er með miklum blóma og ýmsir atburðir eru í burðarliðnum. Rætt hefur verið um hvort þriggja anna kerfi geti verið heppilegra kennslufyrirkomulag en tveggja anna en slíkt kerfi gæti haft ýmsa kosti. Fræðslunefnd hvetur til að málið verði kannað betur innan skólans. Fyrirhugað er að næsta skólaár verði 170 dagar eins og verið hefur síðustu ár og fræðslunefnd er því samþykk einróma. 

3. Frá Leikskólanum Örk 
Árný Jóna Sigurðardóttir sagði frá starfinu á Örk. Ný áætlun um móttöku nemenda er í vinnslu sem og jafnréttisáætlun leikskólans. Yfir stendur vinna við að gera deildarnámsskár sem eru vinnugögn fyrir starfsmenn um hvernig samræma má og bæta aðferðafræði við að ná markmiðum í kennslu. Vel gengur að innleiða stefnu um plastpokalausan leikskóla. Enginn sérkennari er starfandi við leikskólann og umsóknir starfsmanna hafa sem hafa slík réttindi hafa ekki borist þegar auglýst er. Nokkur umræða var um málið. Fræðslunefnd hvetur sveitarstjórn til leita leiða til að bæta ástandið. 

4. Önnur mál
Arnheiður sagði frá að skólastefna hefði verið samþykkt í sveitarstjórn. Kynning á skýrslunni var rædd. Stefnt er að því að senda skýrsluna inn á hvert heimili í sveitarfélaginu og halda opinn kynningarfund. 


Fleira ekki gert og fundi slitið kl 18:25