189. fundur sveitarstjórnar Rangárþings eystra haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins, Hlíðarvegi 16, Hvolsvelli, fimmtudaginn 26. júní, kl. 12:00

Mætt:   Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, Benedikt Benediktsson, Kristín Þórðardóttir, Birkir Arnar Tómasson, Guðmundur Jónsson,  Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi, og Lilja Einarsdóttir, oddviti sem setti fundinn og stjórnaði honum. 
Oddviti bauð fundarmenn velkomna um leið og hann leitaði eftir athugasemdum við fundarboðið. Engar athugasemdir komu fram.

Fundargerð ritaði Árný Lára Karvelsdóttir.

Dagskrá:

Erindi til sveitarstjórnar:
1. Þjónustusamningur Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu um Sérdeild Suðurlands, Setrið Sunnulækjarskóla
Samþykkt samhljóða

2. Tónsmiðja Suðurlands dags. 27.05.14, ósk um samstarf sveitarfélagsins við Tónkjallarann ehf.v. Tónsmiðju Suðurlands
Samþykkt samhljóða að styrkja skólann sem nemur tveimur nemendum að því gefnu að felldur verði út annar málsliður 3. greinar samningsins. Sveitarstjóra falið að boða forsvarsmenn Tónkjallarans til fundar og ganga frá samning í samræmi við umræðu fundarins.

3. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, bréf dags. 16.06.14, aukaaðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga – kjörbréf o.fl.
Aðalmenn                            Varamenn
Ísólfur Gylfi Pálmason         Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir
Lilja Einarsdóttir                  Benedikt Benediktsson
Kristín Þórðardóttir              Birkir Arnar Tómasson
Guðmundur Jónsson         Christiane L. Bahner

Samþykkt samhljóða

4. Skákfélagið Hrókurinn, bréf dags. 11.06.14, beiðni um stuðning við starf Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi og Íslandi.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja starf Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi um 50. 000.- kr og gerast þannig silfurbakhjarl verkefnisins.  Fulltrúar Hróksins munu koma í heimsókn í Hvolsskóla nk. vetur til að efla þar skákmenningu enn frekar. 
     Samþykkt samhljóða

5. Ráðning sveitarstjóra.
Ráðningarsamningur við sveitarstjóra lagður fram á fundinum, undirritaður af oddvita, og borinn fram til samþykktar.

Fulltrúar D og L lista lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu við ráðningasamning sveitarstjóra:
1. 1. gr. verði breytt á eftirfarandi hátt:
Felld verði út setningin „Aðilum er ljóst að við upphaf nýs kjörtímabils sem hefst að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum, mun ný sveitarstjórn taka afstöðu til þess, hvort um framhaldsráðningu er að ræða“.
2. 2. gr. verði felld út í heild sinni enda stendur vinnusambandið yfir til loka kjörtímabils 2018 og samningur þessi nær því ekki yfir lengra tímabil, m.v.t. 2. ml. 1. gr.
3. Í 6. ml. 3. gr. verði orðalaginu „í lok kjörtímabils“ breytt í „í lok hvers orlofsárs“. Hvað snertir ótekið orlof vegna fyrra kjörtímabils 2010-2014 fari eftir fyrri ráðningarsamningi.
4. Á 4. gr. verði gerðar eftirfarandi breytingar:
Við a-lið bætist eftirfarandi setning:
„Ennfremur eru innifalin laun vegna setu í sveitarstjórn og önnur afleidd laun vegna starfa sem kjörinn fulltrúi.“
b-liður falli út í heild sinni
C-liður verði svohljóðandi:
„Sveitarsjóður leggur sveitarstjóra til bifreið, farsíma og fartölvu (spjaldtölvu) og greiðir símakostnað sveitarstjóra og tölvutengingu heimafyrir.“

Greinargerð:
Þær breytingar sem hér eru lagðar til stafar sumar hverjar af eðli máls og aðrar þar sem okkur kjörnum fulltrúum ber að standa vörð um hag sveitarfélagsins og gæta ráðdeildar hvar sem við verður komið í starfi sveitarfélagsins. Starf sveitarstjóra er viðurhlutamikið og vandasamt og fer hann með umtalsverð mannaforráð. Það er okkar skoðun að sveitarfélög verði að ganga á undan með góðu fordæmi og gæta þess að endurgjald til sveitarstjóra sé hófsamt og sanngjarnt og að boginn sé ekki spenntur of hátt á kostnað íbúa sveitarfélagsins. 
Við leggjum hér til breytingar sem eiga að skila meiri rekstrarhagkvæmni sem getur, og á, að skila sér beint til íbúa sveitarfélagsins í formi lægri gjalda.

Til skýringar við breytingartillögur skv. ofangreindum töluliðum er eftirfarandi:
Um 1. tölulið:
Þessi setning er í raun óþörf enda segir í 2.ml. 1. gr. að ráðningartími sé frá 15. júní og til loka kjörtímabils 2018.
Þarna þarf og að breyta ártali úr 2014 í 2018.
Um 2. tl. 
2. gr. fjallar um atburði sem falla utan tímaramma ráðningarsamningsins. Það er okkar álit að sveitarstjóri eigi ekki sjálfkrafa rétt til biðlauna að afloknu kjörtímabili komi ekki til endurráðningar hans af nýrri sveitarstjórn. Eðlilegt er að hann hafi rétt til biðlauna verði honum sagt upp á tímabili því sem ráðningarsambandið stendur yfir. Þessari skoðun okkar má finna styrka stoð í nýlegri könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga um launakjör sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga.
Um 3. tl.
Með þessu móti er komið í veg fyrir ónauðsynlegar sveiflur í launakostnaði sveitarfélagsins enda getur uppsafnað ótekið orlof sveitarstjóra til fjögurra ára numið umtalsverðum fjárhæðum. Til að auka gagnsæi og um leið fyrirsjáanleika við fjárhagsáætlanagerð er lagt til að orlof verið gert upp við lok hvers orlofsárs, enda tíðkast það á almennum vinnumarkaði.
Um 4. tl.
a-liður
Okkur þykir ekki ráðlegt að sveitarstjóri þiggi laun á tvenns konar forsendum fyrir sama vinnuframlag, þ.e. bæði sem sveitarstjóri og sem kjörinn fulltrúi. Slíkt hefur tiðkast fram til þessa, en með vísan til þess að grunnlaun nema umtalsverðum fjárhæðum og langt umfram meðallaun á atvinnusvæðinu, þykir okkur eðlilegt að þar sé látið staðar numið.
b-liður
Við höfum bent á þá leið, að eðlilegra sé að skoða hagkvæmari kosti varðandi bifreiðakostnað sveitarstjóra en þann að greiða honum fastan kílómetrafjölda á mánuði. Við höfum m.a. nefnt að augljóslega sé hagkvæmara að taka á langtímaleigu sparneytna bílaleigubifreið. Við sjáum í hendi okkar að þar geti strax náðst fram um 60% sparnaður á bifreiðakostnaði. Á ársgrundvelli getur það numið allt að. 2.1 milljón. Það eitt og sér gæti numið um 10% lækkun á leikskólagjöldum ef miðað er við tekjur sveitarfélagsins af leikskólagjöldum árið 2013.
c-liður
Breytingin skýrir sig sjálf með vísan til breytingartillögu á b-lið ákvæðisins.

Breytingatillagan felld með 4 atkvæðum ÍGP, LE, BB og ARÁ gegn 3 BAT, KÞ og GJ.

Bókun B-lista
Ráðningarsamningur við sveitarstjóra er sambærilegur við Ráðningasamninga sveitarstjóra í Rangárþingi eystra frá sameiningu sveitarfélaganna árið 2002. Einnig er ráðningasamningur og launakjör  byggð á sömu forsendum og viðmiðun við sveitarstjóra á landvísu sveitarfélaga af svipaðri stærðargráðu.
Við 3. gr. samningsins bætist að kjörtímabilið 2014-2018 verði orlof gert upp við lok hvers orlofsárs.
B og c liður 4 gr. endurskoðist á 1. haustfundi eftir fundarhlé
Ráðningasamningurinn borinn upp aftur til samþykktar með breytingum sem fram koma í bókun B lista.

Samningurinn samþykktur með 4 atkvæðum LE, ÍGP, BB og ARÁ gegn 3 atkvæðum BAT, KÞ, GJ.

Bókun D og L. lista
Við lýsum vonbrigðum okkar með þau vinnubrögð fulltrúa B-listans að fella breytingartillögu okkar í heild sinni án nokkurrar umræðu. Er það ekki í anda góðrar samvinnu og vilja til faglegra vinnubragða við afgreiðslu málsins
Við teljum og ámælisvert að ekki hafi verið kannaðir hagkvæmustu kostir við ákvörðun um ráðningu sveitarstjóra. Skírskotum við þar til ákvæðis 4. gr. Um bifreiðakostnað sveitarstjóra og þær breytingar á tilhögun sem ræddar hafa verið í kjölfar kjörs nýrrar sveitarstjórnar.

Bókun B lista
Fulltrúum B lista þykir miður að fulltrúar D og L lista telji ekki góðan anda til samvinnu og fagleg vinnubrögð viðhöfð. Ekki er rétt með farið að tillaga þeirra hafi ekki fengið neina umfjöllun.

6. Bréf til Sýslumannsins á Hvolsvelli dags. 19.06.14, umsögn v. leyfis skv. lögum nr. 585/2007 vegna Hellishóla.
Staðfest

7. Bréf til Sýslumannsins á Hvolsvelli dags. 19.06.14, umsögn v. leyfis skv. lögum nr. 585/2007 vegna Tjaldhóla.
Staðfest

8. Nefndarskipan, framhald frá síðasta fundi.
Fagráð Sögusetursins

Aðalmenn                                    Varamenn
Ísólfur Gylfi Pálmason                 Lilja Einarsdóttir
Friðrik Erlingsson                         Benedikt Benediktsson
Gunnhildur E. Kristjánsdóttir       Lárus Á. Bragason

Samþykkt með 6 atkvæðum LE,ÍGP, BB, AÞÁ, GJ, KÞ, BAT og 1 sat hjá BAT

Fjallskilanefnd Vestur- Eyjafjalla

Aðalmenn                 Varamenn
Ásgeir Árnason         Óli Kristinn Ottósson
Baldur Björnsson       Jón Örn Ólafsson                            
Samþykkt samhljóða

9. Ársreikningur Kirkjuhvols 2013.
Samþykktur samhljóða

10. Tillaga að fundarhléi sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkir að fundarhlé verði 27. júní – 11. september 2014. Byggðarráð falin fullnaðarafgreiðsla mála þann tíma
Samþykkt samhljóða

11. Minnispunktar vegna tölvukerfis hjá Rangárþingi eystra
Sveitarstjóra falið að leita frekari tilboða og upplýsinga. Málinu vísað til byggðaráðs þegar niðurstöður eru fengnar.

12. Fulltrúar Eldfjallamiðstöðvar koma til að kynna hugmyndir sínar
Sveitarstjórn þakkar Ásbirni Björgvinssyni og Sigmari Vilhjálmssyni fyrir komuna og lýsir ánægju sinni yfir framvindu verkefnisins.

13. Bakkatríóið GG og Ingibjörg, umsókn um styrk vegna tónleika við Seljavallalaug.
Sveitarstjórn samþykkir styrk að upphæð 50.000 kr. með þeim fyrirvara að leyfi umráðaaðila og landeigenda Seljavallalaugar liggi fyrir. Erindi og afgreiðsla málsins er sent Menningarnefnd til kynningar. Samþykkt samhljóða

Fundargerðir nefnda Rangárþings eystra:
1. 157. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands 10.06.14
              Staðfest   

    
Til kynningar:
1. Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands, styrkur vegna minnisvarða um sjósókn í Landeyjum.
Sveitarstjórn þakkar styrkinn og menningarnefnd er send úthlutunina til kynningar.
2. Ársreikningur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 2013.
3. Samþykktir Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
4. Innanríkisráðuneytið bréf dags. 28.05.14, tímabundin breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélga.
5. Samband íslenskra sveitarfélaga, bréf dags. 10.06.14, úthlutun úr Námsgagnasjóði.
6. Vegagerðin bréf dags. 06.06.14, tilkynning um niðurfellingu hluta Eyvindarhólavegar (nr. 2313) af vegaskrá.
Þar sem enginn annar hefur gert athugasemd gerir sveitarstjórn þá athugasemd að þessi vegur liggur að kirkju.
7. Innanríkisráðuneytið, bréf dags. 12.06.14, tilkynning um endanlegt framlag vegna nýbúafræðslu á fjárhagsárinu 2014.
8. Tölvubréf Ingibjargar Kolbeins Sigurðardóttur varðandi lóðarleigusamning að Höfða í Fljótshlíð.
9. Ársreikningur Kötlu jarðvangs ses 2013.
10. Hugmyndir um áframhald Kötlu jarðvangs.
11. Þjóðskrá Íslands bréf dags. 10.06.14, fasteignamat.
12. Þjóðskrá Íslands, bréf dags. 13.06.14, fasteignamat 2015.
13. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, bréf dags. 12.06.14, fjármálastjórn sveitarfélaga.
14. Skipulagsstofnun, bréf dags. 30.05.14, umsögn um beiðni um undanþágu frá gr. 5.3.2.5, lið d. í skipulagsreglugerð vegna deiliskipulags frístundabyggðar í landi Ystabælistorfu, Rangárþingi eystra.
15. Viðhald/viðgerðir á gólfi í leikskóla.
16. Innanríkisráðuneytið, bréf dags. 18.06.14, viðaukar við fjárhagsáætlanir
17. Tilboð vegna tölvukaupa

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30

Lilja Einarsdóttir              
Ísólfur Gylfi Pálmason
Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir  
Benedikt Benediktsson                                                                  
Kristín Þórðardóttir              
Birkir Arnar Tómasson
Guðmundur Jónsson