13. fundur Héraðsnefndar Rangæinga, kjörtímabilið 2002-2006, haldinn að Skógum, mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 16:00.

Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlausson, Jónas Jónsson, Ólafur Eggertsson, Bergur Pálsson, Lúðvík Bergmann og Tryggvi Ingólfsson. Að auki sitja fundinn Elín Einarsdóttir og Árni Jón Elíasson frá Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu og Ingimundur Vilhjálmsson og Sigurður Sigurjónsson, ábúendur að Ytri-Skógum,

Valtýr Valtýsson setti fundinn og stjórnaði honum. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson ritar fundargerð.

1. Málefni Ytri-Skóga:
a) Lagt fram bréf frá ábúendum jarðarinnar Ytri-Skóga, Ingimundi Vilhjálmssyni og Sigurði Sigurjónssyni, dagsett 22/3 2005, með ósk um fund þeirra með héraðs-nefndum Rangæinga og V-Skaftafellssýslu vegna aðalskipulagstillögu fyrir Skóga-svæðið. Ingimundur og Sigurður mættu á fundinn undir þessum lið og skýrðu þau atriði sem þeir gera athugasemdir við í aðalskipulagstillögunni sem auglýst var þ. 9. mars 2005 og er hluti af aðalskipulagstillögu fyrir Rangárþing eystra 2003 - 2015. Athugasemdum ber að skila til Rangárþings eystra innan átta vikna frá auglýsingar-degi. Ábúendur lögðu fram uppdrátt sem dreginn hefur verið á loftmynd og sýnir allar núverandi girðingar auk þess að helstu atriðin í aðalskipulagstillögunni hafa verið sett inn. Ábúendurnir telja að skilyrði til búrekstrar muni skerðast verði aðalskipulagstillagan samþykkt óbreytt. Ábúendur telja m.a. að allt of langt sé gengið í að setja íbúðabyggð nærri búrekstrinum og að ekki megi skerða aðgengi þeirra að brekkunum upp af bæjarhúsunum fyrir beitarafnot og fyrir austan skógræktarsvæðið að Kvernu fyrir beitarafnot, smölun og uppgræðslu. Ábúendur leggja áherslu á óskert aðgengi meðfram Kvernu vegna búrekstrarins og að þar verði ekki girt af land til skógræktar eins og lesa má út úr aðalskipulagstillögunni að til standi að gera. Ábúendur telja að reitur fyrir þjónustustofnanir (Byggðasafnið í Skógum) nái of langt til suðurs á kafla. Ábúendur telja sömuleiðis að lóð umhverfis félagsheimilið hafi verið stækkuð umfram það sem áður var umtalað. Ábúendur benda á, að vegur upp á heiðina sé settur í aðalskipulagstillögunni of nærri aðstöðu þeirra og setja fram þá kröfu, að hann verði settur austan gils eða til vara á sama stað eftirleiðis eins og verið hefur hingað til.

Umræður urðu um aðalskipulagstillöguna og tóku fundarmenn undir athugasemdir ábúendanna að miklu leyti en þó ekki það atriði að vegurinn upp á Fimmvörðuháls verði færður austur fyrir gilið.

Ábúendur spyrja héraðsnefndirnar hvort einhver framtíðarstefnumörkun liggi fyrir hjá þeim varðandi nýtingu jarðarinnar til búrekstrar og annarra nota auk þess sem kemur fram í aðalskipulagstillögunni. Fram kom að héraðsnefndirnar hafa ekki farið í slíka framtíðarstefnumörkun.

Ábúendur lýsa eftir stuðningi héraðsnefndanna við athugasemdir þeirra.

Sigurður bendir á úrskurð Óbyggðanefndar um eignarhald á Skógarfjalli sem úrskurðuð var Þjóðlenda. Valtýr skýrir frá því að þetta málefni verði tekið fyrir síðar á fundinum sem sérliður. Ákveðið að láta reyna á að ábúendur áfrýji þessum úrskurði til dómstóla í sínu nafni fyrir hönd landeigendanna og að sækja um gjafsókn til dóms-málaráðuneytisins.

Ingimundur Vilhjálmsson og Sigurður Sigurjónsson víkja af fundi eftir þennan lið kl. 17.45.

b) Lögð fram drög að samkomulagi Héraðsnefndar Rangæinga og Héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu annars vegar og menntamálaráðuneytisins hinsvegar vegna lóðar Héraðsskólans að Skógum og annarra réttinda svo sem jarðhitaréttinda. Samningsuppkast Tryggva Gunnarssonar frá nóvember 1995 og endurskoðað af Hafsteini S. Hafsteinssyni lagt fram auk uppdráttar af mörkum þess lands sem tilheyra á skólanum framvegis. Í samningsdrögunum er gert ráð fyrir að afsalað verði landi umhverfis skólann samtals að stærð 66.554 fm. Í samningsdrögunum kemur fram að jarðhitaréttindi í öllu landi jarðarinnar Ytri-Skóga skuli skiptast að jöfnu á milli eigenda jarðarinnar að öðru leyti og ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir gagnkvæmum forkaupsrétti hjá aðilum vegna jarðhitaréttindanna.
Lögð fram tillaga um að fengið verði mat á jarðhitasvæðinu innan lands jarðarinnar og að hve miklu leyti hlutfallsleg réttindi til jarðhitans fylgi hvorum eignarhluta um sig. Einnig er lögð fram tillaga um að farin verði sú leið, að gerðir verði tveir samningar, þ.e. annars vegar um lóðina sjálfa sem fylgja á skólahúsnæðinu og hins vegar um jarðhitaréttindin sérstaklega.

Samþykkt samhljóða að undirritun og frágangi samninga verði frestað þar til lögfræðingur héraðsnefndanna hefur yfirfarið drögin og ráðlagt um framhaldið. Formönnum héraðsnefndanna falið að fylgja málinu eftir.

c) Skipulagsmál Ytri-Skóga.
Farið var yfir athugasemdir frá ábúendum að Ytri-Skógum sem komu fram undir lið 1a og önnur atriði sem máli skipta varðandi skipulag jarðarinnar. Um nánari listun athugasemdanna er vísað í lið 1a.

Lögð fram tillaga um að taka tillit til athugasemda ábúendanna varðandi ráðstöfun lands vestan við línu norður-suður sem dregin er meðfram aðkomuvegi frá þjóðvegi 1 og upp í brekkurnar en að aðakipulagstillagan verði samþykkt óbreytt austan við þá línu. Þó er gerð athugasemd við orðalag í aðalskipulagstillögunni, grein 4.3.4, um að birkiskógar eða kjarr skuli vaxa upp á landi jarðarinnar við Kvernu og þess óskað að það verði tekið út og lögð áhersla á að brekkurnar ofan við byggðina að Kvernu haldi óbreyttri ásýnd frá því sem verið hefur.

Samþykkt samhljóða.

d) Þjóðlendumál. Fyrir liggur úrskurður Óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 um eignarlönd jarðanna Ytri- og Eystri-Skóga. Kröfur um eignarland jarðanna eru teknar til greina utan þess að Skógarfjall er úrskurðuð Þjóðlenda, þar sem eigendur jarðanna hafa að mati Óbyggðanefndar, ekki getað sannað eignarhald sitt á fjallinu.

Vísað er til ákvörðunar í lið 1a um áfrýjun úrskurðar Óbyggðanefndar. Jafnframt er lagt til að héraðsnefndirnar, sem eigendur jarðarinnar, veiti Rangárþingi eystra umboð til þess að reka málið varðandi gjafsóknarmöguleika fyrir hönd þeirra.

Samþykkt samhljóða.

e) Afsal fyrir "Þorsteinshús" með fastanúmer 219-1251 sem stendur á lóð með landnúmeri 163680. Húsinu er afsalað til Byggðasafnsins í Skógum. Til staðfestingar og undirritunar.

Samþykkt samhljóða og formönnum héraðsnefndanna falið að undirrita afsalið.

Lóðarleigusamningur fyrir Byggðasafnið í Skógum vegna lóðar með landnúmeri 163680. Lóðin er fyrir "Þorsteinshús". Til staðfestingar og undirritunar.

Samþykkt samhljóða og formönnum héraðsnefndanna falið að undirrita lóðarleigu-samninginn.

Lóðarleigusamningur fyrir Brunavarnir Rangárvallasýslu bs. vegna lóðar með landnúmeri 163865. Til staðfestingar og undirritunar.
Samþykkt samhljóða og formönnum héraðsnefndanna falið að undirrita lóðarleigu-samninginn.

Lagt er til að gert verði stofnskjal vegna lóðar og að gerður verði lóðarleigu-samningur vegna húss sem stendur rétt austan við íbúðarhús Sigurðar Sigurjónnssonar og sem var upphaflega í eigu Guðlaugar Guðjónsdóttur.

f) Lagt er fram erindi frá Eyjólfi Guðmundssyni vegna hugsanlegrar aðstöðu fyrir bensínstöð og tilheyrandi þjónustu í landi Ytri-Skóga við þjóðveg 1. Þetta málefni snýr að eigendum jarðarinnar og þarfnast nánari umfjöllunar héraðsnefndanna ef vilji væri til slíks.

Til kynningar.

Fulltrúar héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu víkja af fundi að loknum þessum lið kl. 19.00.

2. Málefni Ytri-Skóga:
Lagt fram bréf frá ábúendum Ytri-Skóga, dagsett 7/2 2005, með ósk um leyfi til að veðsetja jörðina Ytri-Skóga fyrir láni allt að kr. 2.860.000. Héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu, hefur þegar samþykkt erindið fyrir sitt leyti.
Samþykkt samhljóða.

3. Málefni FSu:
a) Lagt fram bréf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, dagsett 2/12 2004, varðandi framlög sveitarfélaga til Byggingarsjóðs FSu.
Til kynningar.

b) Lagt fram bréf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, dagsett 2/12 2004, varðandi samning um viðbyggingu við Íþróttahús FSu.
Samþykkt samhljóða og formanni falið að undirrita samninginn.

c) Lagt fram bréf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, dagsett 2/12 2004, varðandi umboð til sölu á húseigninni að Þóristúni 1, Selfossi.
Samþykkt samhljóða og formanni falið að undirrita umboð til sölunnar.

4. Innsend bréf:
a) Lagt fram bréf frá Rangárþingi ytra, dagsett 10/2 2005, varðandi endurskoðun fjallskilasamþykktar fyrir Rangárvallasýslu.
Samþykkt samhljóða að formaður Héraðsnefndar Rangæinga vinni með nefnd sem skipuð hefur verið í þetta verkefni.

b) Lagt fram bréf frá Héraðssambandinu Skarphéðni, dagsett 21/3 2005, með tillögum sem beint er til sveitarstjórna frá 83. héraðsþingi HSK 26/2 2005.
Til kynningar.

5. Önnur mál:
a) Formaður upplýsir að stefnt verði að vorfundi héraðsnefndarinnar fyrir lok maí mánaðar 2005.

b) Spurt er hvernig gangi að fá fund með menntamálaráðherra vegna hugsanlegra kaupa á húsnæði Héraðsskólans að Skógum.
Formaður upplýsir að ekki hafi fengist fundartími með ráðherra ennþá.

c) Sagt er frá eftirtektarverðri uppfærslu Tónlistarskóla Rangæinga á hluta af söngleiknum Sound of Music. Formanni falið að senda kennurum og nemendum tónlistarskólans þakkarbréf vegna þessa framtaks.

Fundargerð upplesin og samþykkt.
Fundargerðina ritaði Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.


Fundi slitið kl. 19.30.