10. fundur fræðslunefndar Rangárþings eystra haldinn í litla sal Hvolnum  miðvikudaginn 3. október 2012 klukkan 17:00.

Mættir voru:  Guðlaug Ósk Svansdóttir, Esther Sigurpálsdóttir, Benedikt Benediktsson,  Oddný Steina Valsdóttir, Lárus Bragason boðaði forföll og einnig hans varamaður, Heiða Scheving leikskólastjóri, Sigurlín Sveinbjarnardóttir skólastjóri, Pálína Björk Jónsdóttir fulltrúi starfsfólks Hvolsskóla, Ingibjörg Sæmundsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskólans boðaði forföll, Berglind Bjarnardóttir fulltrúi foreldrafélags Hvolsskóla, Linda Rós Sigurbjörnsdóttir fulltrúi foreldrafélags leikskólans boðaði forföll.
Guðlaug Ósk Svansdóttir, formaður fræðslunefndar setti fund kl. 17
Fundagerð ritaði Gyða Björgvinsdóttir

Dagskrá fundarins:

1. Starfið í Hvolsskóla
Sigurlín sagði frá því hvernig skólinn fór af stað. Hauststörfum skólans er að ljúka þ.e. vinnuskýrslur starfsfólks er tilbúnar og allar umsóknir til Jöfnunarsjóðs eru farnar, námskynningum er að mestu lokið og vinnan við Uppeldi til ábyrgðar (sem er uppbyggingarstefna) er farin að skila sér. Sigurlín kynnti námsver skólans og sagði frá Grænfánaverkefninu sem gengur vel og minnst var á útikennslustofuna, hún nýtist ekki mjög vel þar sem hún er langt í burtu. Skemmdir hafa verið unnar á útikennslustofunni og Sigurlín sagði frá því að verið er að finna stað til að reisa nýja útikennslustofu. Töluvert minna er um lífrænan úrgang eftir að farið var að elda matinn í leikskólanum. Menn úr áhaldahúsinu sækja lífrænan úrgang í skólann einu sinni í mánuði. Við Landeyjafjöru hefur skólinn land í fóstri frá Landgræðslunni, til uppgræðslu. Rætt var um hvort grundvöllur sé fyrir samstarfi leik- og grunnskólans varðandi Grænfánaverkefnið. Sigurlín kynnti nýja Skólanámskrá Hvolsskóla og þar er tekið tillit til nýrrar aðalnámskrár og byrjað er að vinna að innleiðingu hennar.
Umræður um mötuneyti skólans. Eggert Birgisson kokkur mun mæta á næsta fund fræðslunefndar og segja ítarlegar frá mötuneytinu.

2. Starfið í Leikskólanum Örk
Heiða sagði frá starfinu í leikskólanum,  núna eru 90 börn í leikskólanum. Starfið er svipað og það hefur verið og engar stórar breytingar eru framundan. Búið er að laga hljóðvistina. Góð mönnun er á leikskólanum og starfa 10 menntaðir leikskólakennarar við leikskólann. Þrjú 5 ára börn eru í skólaakstri.
Engin dagmóðir er á Hvolsvelli eins og er.
Umræður um hvort innleiða eigi Grænfánaverkefnið í leikskólanum.
Rætt var um skólastefnu sveitarfélagsins.
31. október verður fundur á vegum Menntamálaráðuneytisins fyrir leikskólastarfsmenn varðandi nýja aðalnámskrá.

3. Eggert Birgisson fer yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á mötuneytum skólanna. Matseðlar og nýjar áherslur kynntar.
Þessum lið er frestað til næsta fundar.

4. Tillaga frá Esther Sigurpálsdóttir um bætt vinnufyrirkomulag fræðslunefndar vegna skólaaksturs.
Tillaga Estherar Sigurpálsdóttur um bætt vinnufyrirkomulag fræðslunefndar vegna skólaaksturs
Tillaga:
Til að fræðslunefnd Ranárþings eystra uppfylli lagaskyldur sínar er snúa að skólaakstri er lagt til að  fræðslunefnd fundi fyrir upphaf hvers skólaárs og fjalli þá um og staðfesti endurskoðaða áætlun um skólaakstur fyrir komandi skólaár. Ef svo gera á breytingar á samþykktri áætlun um skólaakstur verði þær bornar undir fræðslunefnd að nýju til staðfestingar.

Greinargerð:
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglna um skólakstur nr. 656/2009 skal skólanefnd fyrir upphaf hvers skólaárs birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur. Áætlunina skal kynna skólaráði og skal hún vera íbúum sveitarfélagsins aðgengileg.
Að gefnu tilefni skal bent á að samkvæmt lögum um grunnskóla ber að leggja fyrir fræðslunefnd allar áætlanir um meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun er um þær tekin. Af þessu leiðir að eigi að gera breytingar á áætlun um skólaakstur ber að leggja það fyrir fræðslunefnd áður en þeim er hrint í framkvæmd. Með því vinnulagi sem ég legg hér til, má koma í veg fyrir að viðlíka vinnubrögð eins og verið hafa raunin  tvö síðustu haust, þar sem einhliða ákvarðanir voru teknar um niðurfellingu hádegisferða fyrir yngstu börnin, án þess að málið hafi hlotið umfjöllun í fræðslunefnd og án þess að leitað hafi verið eftir samkomulagi við foreldra. Heldur var þeim einungis tilkynnt um niðurfellingu ferða. Slík aðferðafræði er ekki einungis aðfinnsluverð, heldur er hún skýrt brot á reglum um skólaakstur, nánar tiltekið 3. gr. og  4. mgr. 4. gr. þeirra.
 Það er skylda okkar í fræðslunefnd að hafa eftirlit með því að starfsemi skólasamfélagsins sé í samræmi við lög og reglur og tryggja þannig m.a. að réttindi nemenda séu virt og þeir fái lögboðna grunnþjónustu. Tel ég að með því vinnulagi sem ég legg til getum við tryggt slíkt enn betur. Efast ég ekki um að fræðslunefnd vilji kosta kapps um að skólahald í Rangárþingi eystra sé til fyrirmyndar líkt og greinir í erindisbréfi nefndarinnar.

Breytingartillaga
Fræðslunefnd Rangárþings eystra samþykkir bætt vinnufyrirkomulag er varðar gr. 3, seinni málsgrein, í Reglum um skólaakstur í grunnskóla en þar stendur;

Skólanefnd skal fyrir upphaf hvers skólaárs birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur. Áætlunina skal kynna skólaráðum og skal hún vera íbúum sveitarfélagsins aðgengileg.


Fræðslunefnd skal birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur en tekur hana ekki til afgreiðslu á annan hátt. Skólastjóra er falið að kynna fyrir fræðslunefnd og foreldraráði áætlun um skólaakstur í lok hvers skólaárs enda ber skólastjóri ábyrgð á skólahaldi og árlegri skipulagningu skólaaksturs í samvinnu við skrifstofustjóra. Einnig skal kynna fyrir fræðslunefnd breytingar sem kunna verða á skólabílstjórum og skólabílum.

Greinargerð:
Sveitarfélagið er dreifbýlt og umfangsmikill skólaakstur kallar á gott skipulag og ávallt er leitað allra leiða til að gera aksturinn eins hagstæðan og mögulegt er án þess að skerða þjónustu við nemendur skólans. Slíkt er ávallt gert í samvinnu við foreldra m.a. með könnun í upphafi skólaárs. Hingað til hefur verið unnið eftir stefnu um skólaakstur sem var komið á haustið 2009 þegar 13:00 ferðin var felld niður, en sú breyting var ekki kynnt á annan hátt nema með fréttabréfi frá Hvolsskóla. Frá þessu var horfið haustið 2012 þegar samþykkt var í sveitarstjórn að taka aftur upp akstur klukkan 13:00 að öðru leyti er skólaakstur með sama sniði og verið hefur undanfarin ár. Það eru 4 – 12 nemendur sem nota 13:00 ferðina í nokkrum í skólabílum í október  2012.
Guðlaug Ósk Svansdóttir

Breytingartillagan samþykkt samhljóða.

 

Fundagerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:15

Guðlaug Ósk Svansdóttir                                                              
Berglind Bjarnadóttir
Benedikt Benediktsson                                                                
Sigurlín Sveinbjarnardóttir
Heiða Scheving                                                                            
Pálína Björk Jónsdóttir
Oddný Steina Valsdóttir                                                               
Esther Sigurpálsdóttir