Sigurmundur Páll Jónsson hefur verið ráðinn sem nýr markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings Eystra. Hann hefur lokið námi í tæknilegri hönnun frá Tækniskólanum í Kaupmannahöfn (KTS) ásamt kerfisfærði við Nýja tölvu- og viðskiptaskólann. Hann starfaði hjá Origo síðustu  fjögur ár, fyrst sem deildarstjóri yfir sérkerfarekstri og síðar sem ráðgjafi í söluteymi. Áður starfaði Sigurmundur sem þjónustustjóri og við rekstur tölvudeildar hjá TRS ehf. í þrjú ár. Þar áður starfaði hann sem deildarstjóri hjá Advania í þrjú ár og kerfisstjóri hjá Reykjavíkurborg í tvö ár. Í gegnum störf sín hefur Sigurmundur stýrt fjölda verkefna, bæði í tengslum við innleiðingu tölvukerfa og einnig í tengslum við markaðsmál s.s. vefsíður, samfélagsmiðla og hafði einnig m.a. umsjón með endurmörkun vörumerkis TRS. Sigurmundur stýrði gerð markaðsefnis hjá TRS og hefur mikla reynslu af því að útbúa kynningarefni, auglýsingar og glærukynningar í gegnum stjórnunar- og sölustörf sín. Simmi, eins og hann er alltaf kallaður er búsettur á Hvolsvelli og þekkir vel svæðið og nærsamfélagið.

Við bjóðum Simma velkominn til starfa og bendum á að hægt er að ná í hann á skrifstofu sveitarfélagsins og á netfanginu simmi@hvolsvollur.is