262. fundur 26. mars 2020 kl. 12:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
 • Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri
 • Elín Fríða Sigurðardóttir aðalmaður
 • Guðmundur Jón Viðarsson aðalmaður
 • Lilja Einarsdóttir oddviti
 • Rafn Bergsson aðalmaður
 • Arnar Gauti Markússon varamaður
 • Guri Hilstad Ólason varamaður
Starfsmenn
 • Margrét Jóna Ísólfsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Margrét Jóna Ísólfsdóttir Skrifstofu- og fjármálastjóri
Dagskrá
Fundur sveitarstjórnar er haldin í fjarfundi, með fjarfundarforritinu Zoom á eftirfarandi slóð: https://zoom.us/j/192887575
Lilja Einarsdóttir fundarstjóri setur fund og leitar eftir athugasemdnum við fundarboð, sem engin eru.

1.Aðgerðaráætlun; Heimsfaraldur inflúensu; COVID-19

2003042

Lög fram endurskoðuð aðgerðaráætlun, Heimsfaraldur inflúensu Covid-19.
Helstu breytingar taka til skólahalds, íþróttamiðstöðva og félagsheimila.
Samþykkt samhljóða.

2.Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf

2003052

Ljóst er að áhrif Covid-19 mun hafa veruleg áhrif á íbúa og atvinnulíf í sveitarfélaginu sem og landinu öllu. Ferðaþjónusta hefur verið ört vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu undanfarin ár. Mikil óvissa ríkir innan greinarinnar um hve langvinn áhrifin verða en mikið tekjutap verður innan greinarinnar á meðan þetta ástand ríkir. Líklegt er að talsverður fjöldi missi vinnu sína eða þurfi að taka á sig skert vinnuhlutfall. Áhrifanna gætir víða í okkar samfélagi og mun því sveitarstjórn Rangárþings eystra veita kröftuga mótspyrnu og gera allt sem í hennar valdi stendur til að fleyta okkur áfram inn í bjartari tíma.

Eftirfarandi eru fyrstu aðgerðir sveitarstjórnar varðandi efnahagsleg viðbrögð við Covid-19:
Samþykktar eru breytingar á gjalddögum í áður samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda fyrir árið 2020. Fyrirtæki og íbúar sem hafa orðið fyrir verulegum áhrif ástandsins geta óskað eftir því að gjalddagar sem vera áttu 1. apríl, 1. maí og 1. júní frestist um allt að 7 mánuði eða til 1. desember í síðasta lagi. Hægt er að sækja um með eyðublaði sem finna má á heimasíðu sveitarfélagsins og senda á hvolsvollur@hvolsvollur.is eða hafa samband í síma 488-4200.

Tímabundin niðurfelling gjalda í mötuneyti, Skólaskjóli og leikskóla. Allir sem kjósa að hafa börnin sín heima viku eða lengur í senn, fá niðurfellingu gjalda á leikskóla, mötuneyti grunnskólans og Skólaskjóli fyrir það tímabil sem þjónustan er ekki nýtt. Þetta ákvæði gildir til til 31. mai 2020.

Íþróttamiðstöð Rangárþings eystra var lokað 23. mars síðast liðinn um óákveðinn tíma. Kort einstaklinga hafa verið fryst og mun tímabilið sem lokað er bætast aftan við gildistíma kortanna. Ekki þarf að óska eftir þessari framlengingu á korti, heldur verðu hún sjálfkrafa á öll gildandi kort.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra felur skrifstofu- og fjármálastjóra heimild til fullnaðarafgreiðslu á ofangreindum málum.
Einungis er um allra fyrstu aðgerðir sveitarstjórnar að ræða. Unnið verður hörðum höndum að öðrum aðgerðum á komandi tímum til að styðja við og styrkja bæði íbúa og atvinnulíf.

Sveitarstjórn telur mikilvægt að á tímum sem þessum verði settur aukin kraftur í umsvif sveitarfélagsins varðandi fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. Sveitarfélagið okkar stendur vel fjárhagslega og er vel í stakk búið til þess að setja aukinn kraft í framkvæmdir og fjárfestingar til að sporna við samdrætti sem á sér stað á öðrum stöðum í atvinnulífinu. Því er það tillaga sveitarstjórnar að aukin þungi verði settur í eftirfarandi framkvæmdir sem nú þegar hafa verið áætlaðar á vegum sveitarfélagsins. Þar á meðal eru eftirfarandi framkvæmdir:

Hönnun og bygging nýs leikskóla á Hvolsvelli
Viðhald og endurnýjun á veitukerfum
Gatnagerð í nýju íbúðahverfi norðan Króktúns
Ofanbyggðavegur með tengingu við þjóðveg 1
Umferðaröryggisáætlun með áherslu á framkvæmdir sem auka umferðaröryggi.
Uppbygging ferðamannastaða í sveitarfélaginu
Uppbygging vega í dreifbýli í samvinnu við Vegagerð og ríki.
Sköpun nýrra starfa á vegum sveitarfélagsins
Framkvæmdir við nýjan miðbæ á Hvolsvelli
Átak verði gert í bættri ásýnd sveitarfélagsins
Sett verði af stað markaðsátak fyrir sveitarfélagið
Uppbygging göngu og hjólreiðastíga til að auka enn frekar tækifæri til útivistar og heilsueflingar

Ekki er um tæmandi lista að ræða varðandi framkvæmdir sem settar verða í forgang né heldur tímaröð. Auk þess mun verða brugðist við þeim verkefnum sem upp koma hverju sinni með hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa að leiðarljósi.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra vill einnig koma á framfæri þakklæti til íbúa sveiarfélagsins fyrir æðruleysi og samstöðu á þessum fordæmalausu tímum enda mikilvægt að á slíkum stundum standi allir þétt saman og vinni sem ein heild samfélaginu öllu til heilla.

Samþykkt samhljóða.


3.Undanþága frá skipulagsreglugerð - Sopi - Rangárþing eystra

2003051

Sveitastjórn hefur farið yfir gögn málsins og gerir ekki athugasemd við að veitt verði undanþága frá 4. mgr. 5.3.2.5. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um fjarlægð milli bygginga og vega.
Samþykkt samhljóða.

4.Bréf er varðar erindi til skipulags- og byggingarnefndar; afgreiðsla máls

2003050

Byggingarfulltrúi fór yfir stöðu málsins. Verið er að vinna að lausn þess, og ætti hún að liggja fyrir á næstu dögum.
Samþykkt samhljóða.

5.Umsögn; Neðri-Dalur; F2 gistileyfi

2003049

Sveitarstjóra falið að veita umsögn þegar aðrir umsagnaraðilar á vegum sveitarfélagisns hafa veitt sína umsögn.

6.Skipulagsnefnd - 83

2002002F

Fundargerð staðfest í heild.
 • Skipulagsnefnd - 83 Á 80. fundi skipulagsnefndar var samþykkt að senda deiliskipulagið til staðfestingar Skipulagsstofnunar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eftir yfirferð Skipulagsstofnunar komu fram athugasemdir sem snéru að því að gera þyrfti grein fyrir brunavörnum, ásamt því að yfirbragð bygginga væri samræmt og í lágstemmdum jarðlitum. Búið er bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar í uppfærðri deiliskipulagstillögu. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og að hún verði send Skipulagsstofnun til staðfestingar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bókun fundar Sveitarstjórn staðfestir bókun skipulagsnefndar og samþykkir að tillagan verði send Skipulagsstofnun til staðfestingar skv. 42 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 • Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd hafnar rökstuðning lóðarhafa Langanes 36 og 38, eins og hann kemur fram í bréfum dags. 7. október 2019 og dags. 21. október 2019, um að skilyrði 3. gr. lóðaleigusamnings frá 20. ágúst 2004 séu uppfyllt. Skipulagsnefnd samþykkir að veita lóðarhafa frest til tveggja ára til að ljúka byggingu sumarhúsa á lóðum 36 og 38 í frístundahúsabyggðinni í Langanesi. Verði skilyrði þessi ekki uppfyllt verða lóðirnar afturkallaðar hvor fyrir sig. Skipulagsnefnd felur Skipulags- og byggingarfulltrúa að vinna áfram að lóðamálum í frístundahúsabyggðinni í Langanesi ásamt því að vinna drög að nýjum lóðaleigusamningum á öllu svæðinu. Bókun fundar Sveitarstjórn staðfestir bókun skipulagsnefndar.
 • Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila breytingu á deiliskipulagi á Grenstanga. Skipulagsnefnd samþykkir framkomna tillögu og mælist til þess að breytingin verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir framkomna tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Grenstanga og að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 • Skipulagsnefnd - 83 Á 81. fundi Skipulagsnefndar var afgreiðslu málsins frestað og samþykkt að leita álits Skipulagsstofnunar á erindinu. Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynna skal fyrir íbúum Hamars, Hallgeirseyjarhjáleigu og Hallgeirseyjar. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynna skal fyrir íbúum Hamars, Hallgeirseyjarhjáleigu og Hallgeirseyjar.
 • Skipulagsnefnd - 83 Afgreiðslu erindisins er frestað. Skipulags- og byggingarfulltrúi vinnur nú þegar að gerð reglna um skilti í Rangárþingi eystra. Bókun fundar Sveitarstjórn staðfestir bókun skipulagsnefndar.
 • 6.6 2002027 Landskipti; Brú
  Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við landskiptin og nafnið á hinni nýju spildu. Bókun fundar Sveitarstjórn staðfestir landskiptin og nafnið á hinni nýju spildu.
 • 6.7 2003004 Deiliskipulag; Brú
  Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að afgreiðslu deiliskipulagsins verði frestað. Bókun fundar Sveitarstjórn frestar afgreiðslu deiliskipulagsins.
 • Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi frá 20. mars 2020 til 19. mars 2021. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir að veita stöðuleyfi frá 20. mars 2020 til 19. mars 2021.
 • Skipulagsnefnd - 83 Að mati skipulagsnefndar er um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Skipulagsnefnd samþykkir breytinguna og leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði afgreidd skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur til að fallið verði frá grenndarkynningu þar sem eingöngu er verið að auka byggingarmagn á tveimur lóðum. Aðrir skilmálar deiliskipulags eru óbreyttir. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi á Ytri-Skógum og að hún verði afgreidd skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkir að fallið verði frá grenndarkynningu þar sem eingöngu er verið að auka byggingarmagn á tveimur lóðum. Aðrir skilmálar skipulagsins eru óbreyttir.
 • Skipulagsnefnd - 83 Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis að undangenginni grenndarkynningu, skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynna skal fyrir íbúum á Skíðabakka 1-3, Kúfhól, Brúnalundi, Brúnavöllum, Ásbrún, Fossbrún, Stóru-Hildisey 1-2, Vatnshól og Gularási. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynna skal fyrir íbúum á Skíðbakka 1-3, Kúfhól, Brúnalundi, Brúnavöllum, Ásbrún, Fossbrún, Stóru-Hildisey 1-2, Vatnshól og Gularási.

7.Safnmappa; þingsályktanir og frumvörp til umsagnar 2020

Næsti fundur sveitarstjórnar hefur verið ákveðinn fimmtudaginn 2. apríl, kl 10:00. Fundurinn verður haldinn í fjarfundi.

Fundi slitið.