Nemendur í 8., 9. og 10. bekk vinna nú að nýsköpunarverkefni sem er unnið þvert á námsgreinar í íslensku, kynjafræði, náttúrufræði, upplýsingatækni og ensku. Starfa nemendur í 3-5 manna hópum og eiga að skapa nýja vöru eða þjónustu með einhverja sérstöðu. Nemendur þróa í ferlinu vöruna/þjónustuna og útbúa sýnishorn af vöru, búa til vefsíðu og kynningarefni.
 
Fimmtudaginn 9. febrúar verður nýsköpunarsýning í Hvolnum þar sem nemendur útbúa kynningarbása og taka á móti gestum og gangandi á opnu húsi á milli kl. 12 og 14. Á sama tíma mun dómnefnd ganga á milli bása þar sem einnig er um keppni að ræða.
 
Verkefni af þessu tagi ýtir undir hæfni nemenda til að breyta hugmynd í raunverulega vöru og spannar allt ferlið. Nemendur auka færni sína í skapandi lausnaleit og nýsköpun. Skilningur á eigin hæfni eykst og samvinna vegur þungt. Á kynningardegi reynir á sjálfstæði, samskipti og almenna félagsfærni. Nýsköpunarverkefnið gefur nemendum gott tækifæri til að þjálfa ofangreinda þætti.