Vinnuskólinn í Rangárþingi eystra lauk störfum miðvikudaginn 31. júlí sl. Krakkarnir og verkstjórarnir þeirra hafa staðið sig með eindæmum vel í sumar og þykir Hvolsvöllur t.d. líta alveg sérstaklega vel út. Börnin í vinnuskólanum sáu ekki aðeins um að lífga upp á útlist sveitarfélagsins heldur settu þau á dögunum nýtt héraðsmet í því hve margir kæmust inn í Ömpuhelli í Hamragörðum. Ömpuhellir heitir eftir gamalli einsetukonu er þar bjó en hellirinn er staðsettur fyrir innan gamla baðþró neðan við Franskanef.  Síðasta skráða met er frá árinu 2009 er 16 manns komust inn í hellinn en núverandi met eru heilir 23 einstaklingar og verður það að teljast gríðargóð bæting. Metið var sett á vikulegum fræðslu-föstudegi og eðli málsins samkvæmt tókst ekki að ná öllum á myndina sem Þorsteinn Jónsson tók.